Áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, mælti fyrir tillögunni í gær.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, mælti fyrir tillögunni í gær. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

Aðrir flutningsmenn tillögunnar eru Bjarkey Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.

Í þingsályktunartillögunni er  ríkisstjórninni falið að skipa starfshóp með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem fái það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu út frá endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun. Áætlunin verði lögð fyrir þingið eigi síðar en 1. febrúar nk. og höfð til hliðsjónar við vinnslu fjárlaga á komandi árum.

Tillagan hefur áður verið borin upp á Alþingi en hlaut ekki afgreiðslu.   

“Á árunum eftir hrun íslensku bankanna réðst þáverandi ríkisstjórn í meiri háttar aðgerðir til að rétta af fjárlagahalla og treysta stoðir ríkisfjármála. Þessar aðgerðir lögðu grunninn að batnandi stöðu ríkisfjármálanna og efnahagslífsins almennt, sem og góðum horfum til framtíðar. Ef hagvaxtarspár ganga eftir er því ekki óvarlegt að ætla að allnokkurt svigrúm myndist í ríkisrekstri til að efla á nýjan leik þær mikilvægu samfélagslegu undirstöður sem kreppa undanfarinna ára þrengdi óumflýjanlega að. Lagt er til að stjórnvöld geri áætlanir um hvert það svigrúm getur orðið á næstu fjórum árum og leggi jafnframt fram forgangsröðun um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu,” segir í þingsályktunartillögunni.

Þingsályktunartillagan í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert