Green Freezer ekki dregið í kvöld

Flutningaskipið Green Freezer á strandstað.
Flutningaskipið Green Freezer á strandstað. Landhelgisgæslan/Sigurður Ásgrímsson

Beðið verður til morguns með að draga flutningaskipið Green Freezer. Lítið olíuskip er nú á leið á strandstað en stefnt er að því að dæla olíu úr skipinu til að létta það. Áhöfn skipsins er enn um borð.

Skipið reyndist þyngra og fastara en gert var ráð fyrir en taug sem komið var á milli skipsins og varðskipsins Þór í dag slitnaði þegar átti að draga skipið.

Flutningaskipið strandaði fyrir neðan bæinn Eyri á Fáskrúðsfirði um áttaleytið sl. miðvikudagskvöld. Áhöfnin var á leið að Loðnuvinnslunni í firðinum og beið eftir hafnsögumanni svo hægt væri að lóðsa skipið inn fjörðinn.

Sigldu einn hring í firðinum

Ákveðið var að sigla einn hring í firðingum á meðan beðið var en þá festist afturhluti skipsins á skeri. Fyrstu fréttir sem bárust af strandinu bentu til þess að skipið yrði dregið á flóði um tíuleytið um kvöldið, en ekkert varð úr því.

Daginn eftir kom í ljós að skipið myndi ekki sigla fyrir eigin vélarafli, yrði það dregið af strandstað. Kafarar könnuðu ástand skipsins og sáu að eitt skrúfublaðið er alveg af og stýrið stórskemmt. Í tilkynningu frá Landsbjörgu sem barst fjölmiðlum kvöldið sem skipið strandaði kom fram að strandið hefði orðið vegna vélarbilunar.

Hver á að draga skipið?

Óvissa hefur ríkt um hver á að draga skipið af strandstað og hvenær það verður. Lögregla, björgunarsveitir og fleiri fóru af vettvangi í gærkvöldi þegar ljóst var að skipið yrði ekki dregið og sagði lögregla á Fáskrúðsfirði í samtali við mbl.is að nú það verkefni útgerðarinnar að finna út hver ætti að fjarlægja skipið af strandstað.

Í  morgun bárust aftur á móti fréttir af því að Landhelgisgæslan hyggðist beita svokölluðum íhlutunarrétti með vísun í lög um verndun hafs og strandar. Ekki fór þó betur en svo í dag þegar búið var að koma taug á milli varðskipsins Þórs og Green Freezer að taugin slitnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert