Ræða um krabbamein á mannamáli

Jóhannes Valgeir Reynisson, stofnandi Bláa naglans.
Jóhannes Valgeir Reynisson, stofnandi Bláa naglans. Rax / Ragnar Axelsson

„Ráðstefnan er opin almenningi og verður á mannamáli,“ segir Jóhannes Valgeir Reynisson, forsprakki Bláa naglans, tákns vitundarvakningar karlmanna með krabbamein, sem á morgun stendur fyrir haustráðstefnu um krabbameinsrannsóknir og meðferð á krabbameini hérlendis. Ráðstefnan hefst klukkan 9 í fyrramálið á Grand Hótel í Reykjavík og munu þar ýmsir færir sérfræðingar halda erindi.

„Við erum að fá rannsakendur til að upplýsa og koma þessum fræðum nær almenningi og auk þess upplýsa fólk um það hver byltingin er í þessum tækjum sem eru komin,“ segir Jóhannes, en nýr línuhraðall hefur til að mynda verið tekinn í notkun á Landspítala og verður fjallað um það stóra hlutverk sem hann gegnir í geislameðferð. 

Hátt í 20 íslenskir sérfræðingar munu koma fram á ráðstefnunni á morgun, og fjalla um hinar ýmsu rannsóknir og meðferðir. Þá hefur prófessorinn Ian Banks, sem er forseti European Mens Health Forum komið til landsins til að halda erindi á ráðstefnunni. „Svo mun Ásgeir Theodórsson sem er einn sá fremsti hvað varðar ristilkrabba á Íslandi, vekja athygli á sjúkdómnum og því hvað hægt er að koma í veg fyrir mörg dauðsföll.“

Ráðstefnan er opin almenningi án endurgjalds, meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á heimasíðu Bláa naglans www.blainaglinn.is

Hér verður hægt að fylgjast með ráðstefnunni.

„Hægt að koma í veg fyrir allt að 80% dauðsfalla“

Blái naglinn stendur jafnframt fyrir landssöfnun um þessar mundir, líkt og undanfarin ár. Að þessu sinni er ætlunin að safna fé fyrir skimunarprófi sem verður sent til allra sem verða fimmtugir á árinu 2015 og árlega eftir það til 2017 í það minnsta. „Þetta hefur aldrei verið gert áður neins staðar í heiminum,“ segir Jóhannes, en með skimunarprófinu segir hann möguleika á að koma í veg fyrir 25-30% dauðsfalla á ári. „Ef fólk fer svo í speglun er hægt að koma í veg fyrir allt að 80% dauðsfalla.

Jóhannes segir 4.388 einstaklinga verða fimmtuga á næsta ári, og munu þeir allir fá prófið sent heim. „Fólk þarf svo helst að svara prófunum svo við getum áttað okkur almennilega á því hvað þetta er stórt vandamál,“ segir Jóhannes, en rúmlega 50 einstaklingar deyja hér á landi úr ristilkrabbameini á ári hverju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert