Rangt að fella málið niður

mbl.is/Rósa Braga

Umboðsmaður barna hefur sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara álit sitt vegna meðferðar máls sem varðar ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Umboðsmaður er ósammála túlkun ákæruvaldsins á núgildandi lögum og telur hana brjóta gegn réttindum barna.  

Auk þess hefur hann áhyggjur af því að vinnubrögð lögreglunnar í málinu hafi ekki verið nægilega vönduð, enda virðist hún byggja niðurstöðu sína á orðalagi lagaákvæðis sem ekki er lengur í gildi. Umboðsmaður hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir og telur óásættanlegt að börnum sé ekki veitt ríkari vernd gegn ofbeldi hér á landi. 

Í álitinu kemur fram, að umboðsmaður barna harmi þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fella niður mál sem varði ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskólanum. Ennfremur lýsir hann yfir vonbrigðum sínum yfir því að ríkissaksóknari hafi staðfest umrædda ákvörðun.

Umboðsmaður gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu að sú háttsemi að slá barn á rass teljist ekki refsiverð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Bent er á, að í lok síðasta árs hafi Barnavernd Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að starfsmenn ungbarnaleikskóla - en um er að ræða ungbarnaleikskólann 101 - hefðu beitt ómálga börn harðræði.

„Ýmis gögn lágu fyrir í málinu, meðal annars myndskeið þar sem starfsmaður slær barn á rassinn. Þrjú vitni staðfesta að umræddur starfsmaður hafi oft rassskellt börn á leikskólanum. Foreldrar barnsins í umræddu myndbandi kærðu málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en málið var fellt niður með vísan til þess að það teldist ekki líklegt til sakfellis. Ákvörðun lögreglunnar um að fella málið niður var í framhaldinu kærð til ríkissaksóknara, sem staðfesti ákvörðunina. Umboðsmaður barna lítur mál sem varða ofbeldi gegn börnum alvarlegum augum og ákvað því að skoða málið nánar. Hann óskaði því eftir öllum gögnum málsins frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Gögnin bárust í lok maí sl.“

Lítur málið alvarlegum augum

Þá segir, að umboðsmaður barna telji „að sú niðurstaða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara um að fella umrætt mál niður hafi verið röng. Umboðsmaður barna telur það skýrt brot á 99. gr. barnaverndarlaga að slá barn á rassinn, óháð því hvort það hafi verið gert í uppeldislegum tilgangi eða ekki.“

Ennfremur segir: „Umboðsmaður barna lítur málið alvarlegum augum. Hann skorar á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara til að endurskoða túlkun sína á ofangreindum refsiákvæðum. Ef ákvæðin verða hins vegar áfram túlkuð með þessum hætti er brýnt að breyta barnaverndarlögum og árétta enn frekar að hvers kyns líkamleg valdbeiting gegn börnum sé refsiverð.“

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir.

„Ef refsiákvæði 99. gr. barnaverndarlaga og 217. gr. almennra hegningarlaga eru túlkuð með þessum hætti má ætla að það teljist ekki refsivert að beita barn ofbeldi, svo lengi sem það hefur ekki sýnilegar afleiðingar. Börn á leikskólum eru háð umönnun og vernd starfsfólks og sett undir yfirburðarstöðu þess. Ung börn hafa ekki getu til þess að segja frá ofbeldi eða tjá sig um þau áhrif sem það hefur á líðan þeirra. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að hvers kyns ofbeldi gegn börnum hefur slæm áhrif á velferð þeirra, auk þess sem slíkt kennir börnum að eðlilegt sé að grípa til ofbeldis til að bregðast við mótlæti eða ná fram fram vilja sínum,“ segir í álitinu.

Álit umboðsmanns barna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert