Úrgangi breytt í eldsneyti á fiskiskip

„Nánast öll okkar framleiðsla er keypt af Samherja og notuð sem bætiefni í eldsneyti fiskiskipanna þeirra. Við getum ekki framleitt meira nema stækka verksmiðjuna.“

Þetta segir Kristinn H. Sigurharðarson, stjórnmaður í nýsköpunarfyrirtækinu Orkey á Akureyri. Fyrirtækið vinnur lífdísil úr úrgangi, aðallega steikingarolíu og dýrafitu. Lífdísilinn er hægt að nota á stærri dísilknúin ökutæki, svo sem strætisvagna, sorpbíla, hópferðabíla og flutningabíla, en einnig á fiskiskip. Þá er hægt að nota framleiðsluna sem umhverfisvænt íblöndunarefni við lagningu vegklæðninga og kemur hún þá í stað lífrænna leysiefna.

Mikill ávinningur

Viðskiptahugmyndin að baki Orkey er að framleiða lífdísil, bætiefni í eldsneyti, úr úrgangi eins og steikningarolíu og dýrafitu. Tvennt vinnst með því. Í fyrsta lagi spara veitingahús og mötuneyti urðunargjald á tugum tonna á ári. Í öðru lagi verður við vinnsluna til bætiefni í eldsneyti sem dregur úr mengun, fer betur með vélar og sparar eldsneyti.

Orkey hóf starfsemi fyrir fjórum árum, í nóvember 2010, og var þá fyrsta verksmiðja sinnar tegundar hér á landi. Hugmyndin var upphaflega að framleiða bætiefni fyrir dísilknúna bíla á Akureyri. Tilraunir voru gerðar með notkun framleiðslunnar á strætisvagn á Akureyri og gafst það vel.

Umhverfisvænt

Þróunin hefur hins vegar orðið sú að öll framleiðsla Orkeyjar, 300 þúsund lítrar á ári, fer til útgerðarfyrirtækisins Samherja og er notuð með góðum árangri á nokkur fiskiskipa félagsins. Olíufélögin flytja hins vegar inn sín íblöndunarefni þar sem innlend framleiðsla er engan veginn fullnægjandi til að anna markaðnum.

Nokkrar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Orkeyjar frá því fyrirtækið var stofnað, en nú standa að því sex aðilar: Mannvit, Samherji, Norðurorka, Tækifæri, N1 og Víkey.

Lífdísill Orkeyjar er sem fyrr segir framleiddur úr úrgangi og eru nánast öll önnur efni í framleiðslunni af endurnýjanlegum uppruna: metanól frá CRI, heitt vatn og rafmagn frá Norðurorku. Má því segja að framleiðsla Orkeyjar sé eins umhverfisvæn og mögulegt er.

Bætt aðgengi að hráefni

Það var í fyrravor sem samstarfið við Samherja hófst. Þá var prófuð sérstök lífdísilblanda í stað innflutts eldsneytisíblöndunarefnis. Niðurstöður verkefnisins voru jákvæðar og í framhaldinu keypti Samherji efnið á fjögur skipa sinna, um 80 tonn í upphafi. Heildarmarkaður lífdísilblöndu hérlendis fyrir fiskiskipaflotann, alls 90 togskip, er áætlaður um 1.800 tonn á ári.

Orkey hefur einnig selt Vegagerðinni lífdíslil til að nota í vegklæðingu.

Orkey hefur samið við Efnamóttökuna og Gámþjónustuna um söfnun notaðrar steikingarolíu á landinu öllu. Viðskiptavinum er útvegað geymsluílát þar sem úrgangurinn er geymdur, ílátin eru síðan tæmd reglulega eftir óskum hvers og eins. Þetta hefur leitt til þess að aðgengi Orkeyjar að hráefni hefur aukist verulega.

Búa til smyrsl úr minkafitu

Margs konar smáiðnaður er búbót í sveitum landsins. Heimilisfólkið að Syðra-Skörðugili í Skagafirði, þar sem rekið er minkabú, vinnur heilsuvörur úr fitunni sem til fellur við minkaræktina. Tvær tegundir eru komnar á markað. Sárabót sem er mýkjandi, græðandi og kláðastillandi smyrsl ætlað fólki, og Sárasmyrsl ætlað dýrum. Er það sagt vera gott á sár, bit og múkk. Fleiri vörur eru væntanlegar frá fyrirtækinu sem heitir Urðarköttur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert