Auglýsa tsjúkklíng og handborgara

Sigmar Vilhjálmsson
Sigmar Vilhjálmsson mbl.is/Ómar

„Það er alltaf krúttlegt að heyra börn svara hinum ýmsu spurningum og svo verður það mjög fyndið þegar þú færð fullorðna í að túlka það,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, eða Simmi, annar eiganda Íslensku Hamborgarafabrikkunnar, um nýjar sjónvarpsauglýsingar staðarins sem fóru í loftið í vikunni. 

Þemað í auglýsingunum er „Við verðum aldrei of gömul fyrir hamborgara!“ og voru börn á aldrinum 4-6 ára fengin til að svara hinum ýmsu spurningum. Fullorðnir einstaklingar voru svo fengnir til að „mæma“ það sem börnin höfðu að segja með tilþrifum. Í auglýsingunum er meðal annars rætt um „tsjúkklíng“ og „handborgara“ og skín einlægni barnanna í gegn.

„Fyrirmyndin eru skemmtiþættir á netinu þar sem talað er við börn um alls konar málefni og fullorðnir fengnir til að túlka það,“ segir Simmi, en umræddir þættir heita Kid Snippets og eru aðgengilegir á YouTube. Hann segist jafnframt hafa séð að auglýsendur úti í heimi hafi gert svipað grín, „en maður lendir nú alltaf í því.“

Simmi segir viðbrögðin við auglýsingunum hafa verið mjög góð. „Ég get ekki fundið annað en það að fólk kunni að meta þetta. Þetta er mjög saklaust og skemmtilegt grín,“ segir hann.

Framleiðandi auglýsinganna er Stórveldið, og var þeim leikstýrt af Kristófer Dignus, en hann leikstýrði meðal annars áramótaskaupinu á síðasta ári.

Hér að neðan má sjá tvær af auglýsingunum, sem eru alls 11 talsins. Restina má finna á YouTube-síðu Hamborgarafabrikkunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert