Uppboði á Háafelli frestað

Virðuleg og vel hærð geit að Háafelli.
Virðuleg og vel hærð geit að Háafelli. Malín Brand

„Þetta bjargaðist fyrir horn í bili. Það er ekki búið að ganga frá samningum við bankann en uppboðinu hefur verið frestað,“ segir Jó­hanna B. Þor­valds­dótt­ir, geit­ar­rækt­andi á Háa­felli í Hvítársíðu, en rúm­lega fjörutíu millj­óna króna skuld hvíl­ir á jörðinni.

Hætta var á, ef ekki tækist að semja um skuldina, að Jó­hanna og Þor­björn Odds­son myndu missa heim­ili sitt og at­vinnu auk þess að þeim 400 geitur sem eru á bænum yrði slátrað.

Hátt í fjórtán milljónum hefur nú verið safnað á vefsíðunni indiegogo til að aðstoða Jóhönnu og Þorbjörn en hjálpin hefur aðallega borist frá einstaklingum sem búsettir eru erlendis. Hún sagði í samtali við mbl.is að safna þyrfti að minnsta kosti 10 milljónum svo hægt yrði að reyna að semja við bankann. 

Jóhanna segir geit­ar­rækt­end­ur og dýra­vin­i víða um heim hafa sýnt mál­inu mik­inn áhuga en að að áhuginn sé talsvert minni hjá íslenskum yfirvöldum.

Sjónvarpsstjörnur og ostagerð

Jó­hanna sagði í viðtali við mbl.is að skuld­in kæmi til vegna upp­bygg­ing­ar á stofni sem gef­i ekki af sér fyrstu árin auk þess sem að þeir styrkir sem hún hafi átt von á hafi ekki reynst jafn vel og hún bjóst við. Jóhanna hóf geit­ar­rækt­un árið 1999 en þá voru ein­ung­is til 4 koll­ótt­ar geit­ur á land­inu og genið við það að deyja út.

Í dag eru 95% koll­óttra geita í stofn­in­um í eigu Jó­hönnu. Hún sagðist gera sér vonir um að hefja ostagerð og að það sé ein af for­send­um þess að starfið verði sjálf­bært.

Aðdáendur sjónvarpsseríunnar Game of Thrones hafa eflaust lagt sitt af mörkum við söfnunina en eins og frægt er fóru nokkrar geiturnar með hlutverk í fjórðu þáttaröðinni og var geitin Casanova meðal annars hrifinn burt af dreka Khaleesi. 

Sigurður Bogi Sævarsson
Þessar geitur eru rólegar.
Þessar geitur eru rólegar. Af Facebook-síðu Veðurstofunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert