Aðstoðaði við fæðingu í heimsreisunni

Nanna gerðist hvunndagshetja þegar hún aðstoðaði við fæðingu í bát …
Nanna gerðist hvunndagshetja þegar hún aðstoðaði við fæðingu í bát á ferð.

Þó svo að heimsreisur séu orðnar æ algengari meðal ungs fólks eru eflaust fáir sem fá að upplifa ævintýri á við það sem Nanna Tulinius Ottósdóttir lenti í síðastliðinn þriðjudag.

Nanna hefur verið á heimsreisu síðustu mánuði ásamt vinkonu sinni Ninu Peterson og voru þær á ferð frá Koh Tao í Taílandi til eyjunnar Koh Panghan með bát þegar ung kona um borð fékk hríðir. 

„Þetta var alveg ótrúlega mikið ævintýri. Ég var á efri hæðinni að fá vatngusur yfir mig vegna öldugangs þegar kona kemur hlaupandi, öskrandi hvort einhver viðstaddur sé læknir. Enginn svaraði þannig að ég hugsaði með mér að ég hefði nú einu sinni farið á skyndihjálpnámskeið, ég gæti nú kannski eitthvað hjálpað. Ég bjóst alls ekki við því að kona væri að fæða barn,“ segir Nanna. 

Lærði „ýta“ og „dugleg“ á taílensku

Hún játar að hún hafi verið gríðarlega stressuð og óviss um hvernig hún ætti að bera sig að í fyrstu en segir að fljótlega hafi hún hinsvegar hrokkið í gírinn enda dugði ekkert annað. Á milli þess sem hún reddaði síma svo hægt væri að hringja í hjúkrunarfólk, googlaði hún hvort allt væri ekki örugglega með felldu og tók hún jafnvel á sig að læra taílensk orð á við „ýta“ og „dugleg“ til að hughreysta konuna sem skildi enga ensku.

„Ég hjálpaði við að athuga púlsinn, gaf henni vatn og minnti hana á að anda, reddaði síma og þurrkaði svo barninu,“ segir Nanna og minnir á að allt hafi þetta farið fram í bát á ferð. „Aðstæðurnar voru mjög erfiðar. Það voru mjög miklar öldur og báturinn kastaðist til og frá. Í eitt skiptið skaust stelpan sem var að taka á móti fylgjunni alveg að veggnum en ég náði að grípa stelpuna sem var að fæða svo hún myndi ekki fara líka.“

Aðstoðin skipti sköpum

Nanna segir fæðinguna hafa tekið um tvo og hálfan tíma. Bátsferðin sjálf var þrír tímar en bátnum seinkaði um klukkutíma vegna öldugangs. „Fæðingin byrjaði mjög fljótlega eftir að báturinn var lagður af stað og kláraðist alveg þegar sjúkraliðarnir komu inn í bátinn við komu til Koh Pangan. Barnið sem var strákur kom í heiminn klukkan 16.47 og það klöppuðu allir þegar stelpan sem tók á móti barninu tilkynnti það,“ segir Nanna. Hún segir það hafa verið afar góða tilfinningu að geta hjálpað til og að þó svo að hennar hluti geti virst smávægilegur hafi hann skipt miklu máli.

„Ég ætla klárlega aftur á skyndihjálparnámskeið og mér finnst að allir ættu að gera slíkt hið sama,“ segir Nanna. Innt eftir því hvort hún hyggist leggja ljósmóðurstarfið fyrir sig segist hún vel geta hugsað sér það enda sé hreint mögnuð tilfinning að fá hlutdeild í fæðingu.

Aðstæðurnar voru svo sannarlega ekki eins og best var á …
Aðstæðurnar voru svo sannarlega ekki eins og best var á kosið í bátnum.
Báturinn sem fæðingin átti sér stað á var litlu stærri …
Báturinn sem fæðingin átti sér stað á var litlu stærri en ferjan til Hríseyjar.
Nanna ásamt Ninu Peterson sem er henni samferða á heimsreisunni.
Nanna ásamt Ninu Peterson sem er henni samferða á heimsreisunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert