Benni Hemm Hemm ánægður í Vesturbæjarskóla

Benedikt Hermann Hermannsson tók í haust við starfi tónlistarkennara í …
Benedikt Hermann Hermannsson tók í haust við starfi tónlistarkennara í Vesturbæjarskóla. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Benedikt Hermann Hermannsson tók í haust við starfi tónlistarkennara í Vesturbæjarskóla þar sem hann kennir nemendum í 1.-7. bekk. Benedikt er betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm en hann útskrifaðist sem tónlistarkennari úr listkennsludeild Listaháskóla Íslands í vor.

En hvenær skyldi hann fyrst hafa fengið áhuga á tónlistarkennslu?

„Ég hef svo oft verið spurður að því hvenær ég hafi fyrst fengið áhuga á tónlist og hef aldrei hugmynd um hvernig ég eigi að svara því en þetta er hinsvegar skýrt í mínum huga. Ég var alltaf ákveðinn í því að kenna ekki, alveg frá því að ég var barn,“ segir hann og útskýrir að þegar einhver hafi nefnt við hann að hann gæti kannski orðið kennari hafi honum alls ekki litist á það.

„Þessi hugmynd viðhelst hjá mér í raun þangað til eftir að ég var búinn að sækja um kennaranámið,“ segir Benedikt, sem upphaflega ætlaði sér í meistaranám í tónsmíðum en sambland af skriffinnsku og örlögum hagræddi því þannig að hann endaði í listkennsludeildinni.

„Á þeim tíma var ég þannig séð ennþá á þessari skoðun. Fannst kennslan vera fyrir þá sem klúðra því sem alvöru tónlistarmenn fást við, að þetta væri eitthvað sem maður neyddist til að gera. Ég byrjaði í deildinni með það hugarfar að ná mér í réttindi, sem er algengur frasi. En frá fyrsta degi kynntist ég ótrúlega mögnuðu fólki og lærði hluti sem heilluðu mig algerlega. Ég áttaði mig tiltölulega snemma á því að ástæðan fyrir því að ég var svona ákveðinn í að kenna ekki var sú að ég var skíthræddur við það. Ég held að það sé algengt,“ segir Benedikt um að hræðslan valdi þessum fordómum og kennsla geti vissulega verið ógnvekjandi verkefni. „Það er stórt verkefni að ætla að stýra atburðarás með mörgum öðrum í hóp, það er erfitt, með hverjum sem er,“ segir Benedikt sem fékk brennandi áhuga á kennslunni.

Þurfti ekki að breytast

Á unga aldri þegar hugmyndin um að hann gæti kannski orðið tónlistarkennari þegar hann yrði stór hugsaði hann eins og áður sagði að það væri ekki möguleiki. „Nei, ég er svona tónlistarmaður sem skrifar nótur, semur tónlist og spilar á tónleikum,“ var viðhorf hans. „Sá sem kennir er einhvern veginn öðruvísi týpa og ég ætla ekki að breytast í þann mann. Það er skiljanleg hugsun því það vill enginn breytast allt í einu í einhvern annan. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var byrjaður í skólanum að kennarinn væri ég, að ég þyrfti ekki að breytast,“ segir hann, þannig að hann gat alveg sameinað þessi sjálf; tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm er sama manneskja og tónlistarkennarinn Benedikt Hermann Hermannsson.

„Námið hefur ekki aðeins haft áhrif á hvernig ég sé sjálfan mig sem kennara heldur líka áhrif á hvernig tónlistarmaður ég er. Kennslufræðipælingarnar hafa líka breytt því hvernig ég vinn sem tónlistarmaður en þetta er að mörgu leyti svipuð vinna. Ég að búa til tónlist í kennslustofunni með nemendum lítur í rauninni svipað út og hljómsveitaræfing hjá mér núna.“

Til áherslu rifjar hann upp útgáfutónleika á síðustu plötu sinni á Kexinu. „Þetta var svipuð stærð og bekkur, rúmlega tuttugu manns, það var ekki hægt að sýna hverjum og einum nákvæmlega hvað hann ætti að gera heldur spiluðum við lögin og allir gerðu sitt besta. Ég réð ekki hvað var að gerast heldur var hópurinn að búa þetta til, samt voru þetta mín lög. Mér finnst miklir töfrar í þessu og er spenntur fyrir svona vinnu. Það er ekkert sem ég fæ meira út úr en þegar hlutirnir ganga upp og eitthvað magnað er að gerast í kennslustofunni.“

Hann er ánægður með fyrstu vikurnar í kennslunni. Eitt af því sem hann er búinn að gera er hljóðfæragerð úr efni sem nemendur komu með að heiman. „Ég er að prófa mig áfram með hljóðfæragerð og er að fara í grunnatriði í tónlist, takttegundir og hljóma en útgangspunkturinn er alltaf að búa eitthvað til. Framlag frá krökkunum er nauðsynlegt og er efniviðurinn í kennslunni. Í þessari viku erum við búin að hlusta á lög í ólíkum takttegundum og búa til lög í ólíkum takttegundum. Það gerist ótrúlega margt í því ferli að búa eitthvað til.“

Opið andrúmsloft í skólanum

Hann er ánægður með vinnustaðinn Vesturbæjarskóla. „Það er magnað tækifæri að vera í þessum skóla því það eru allir ótrúlega spenntir fyrir að prófa nýjar aðferðir. Þetta er þannig séð tilraunakennd kennsla. Það hefði einhver skólastjórnandi getað gert athugasemdir við það að í annarri vikunni í vinnunni minni fyllti ég stofuna af rusli,“ segir hann og vísar þá til hjóðfæragerðarinnar með fundnu efnunum að heiman.

Viðtalið í heild sinni má lesa í Sunnudagsmogganum sem kom út í gær. 

Rætt er við Benedikt Hermann Hermannsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Rætt er við Benedikt Hermann Hermannsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert