Orri frá Þúfu allur

Orri frá Þúfu
Orri frá Þúfu mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kynbótahesturinn Orri frá Þúfu er allur, en hann var felldur um helgina. Hann var 28 vetra gamall. 1.320 afkvæmi voru skráð undan hestinum, að sögn Önnu Berglindar Indriðadóttur á Þúfu, eins af aðstandendum hestsins.  

„Orri varð fyrir slysi síðastliðinn vetur, það gengu til liðir í hálsinum á honum. Það var ekkert að ganga til baka. Hann var því ekki lengur fær um að vera í hryssum og það var ekkert útlit fyrir því að hann yrði það aftur. Það var því tekin ákvörðun um að fella hann,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Orri verður heygður við bæinn Þúfu, fæðingarstað sinn. 

Einkar gáfaður kynbótahestur

„Hann var náttúrlega fyrst og síðast kynbótahestur, hann skilaði óvanalega mörgum góðum afkvæmum sem hafa verið hátt dæmd. Hann var líka sjálfur hátt dæmdur á sínum tíma sem einstaklingur í kynbótadómi,“ segir Anna Berglind en hún segir að meira hafi verið í hann spunnið.

„Sem hestur var hann mjög sérstakur. Hann var með svo mikinn og skemmtilegan persónuleika. Fyrir okkur sem vorum alltaf með hann og þekktum hann þá var hann einstakur, hann var auk þess einkar gáfaður hestur,“ segir hún að lokum.

Haldið var upp á 25 ára afmæli Orra í Ölfushöllinni …
Haldið var upp á 25 ára afmæli Orra í Ölfushöllinni en með honum á myndinni eru dætur Önnu Berg­lind­ar og faðir hennar, Indriði Th. Ólafsson. Hann er ræktandi Orra og upphaflegur eigandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert