Úlfar í Breiðholti

Dagur B. Eggertsson ásamt Evu Rós Bjarnadóttur.
Dagur B. Eggertsson ásamt Evu Rós Bjarnadóttur. Árni Sæberg

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, vígði í gær ný vegglistaverk í Breiðholti eftir Ragnar Kjartansson og vegglistahóp Miðbergs. Borgarráð ákvað á síðasta ári að fjölga listaverkum í opinberu rými í Breiðholti og eru verkin hluti af því átaki. Borgarstjóri fór ásamt góðum hópi í göngutúr um hverfið og barði hluta verkanna augum.

„Við gröffuðum í Miðbergi, undirgöngum og á ýmsa veggi hér og þar í Breiðholti. Borgarstjóranum leist bara vel á. Hann sá samt bara tvö af verkunum okkar,“ segir Eva Rós Bjarnadóttir, einn meðlima vegglistahópsins í Miðbergi.

Úlfaveggur í Bökkunum

Verkefnið er fimm stórar veggmyndir eftir listamennina Erró, Theresu Himmer, Söru Riel og Ragnar Kjartansson auk minni veggmynda eftir ungmennin úr Miðbergi. Listasafn Reykjavíkur hafði umsjón með verkefninu en það var unnið í samráði við íbúa í Breiðholti og hverfisráð.

„Borgarstjórinn kíkti reyndar á göngin sem voru hvað síst flott. Það hefði verið gaman ef hann hefði kíkt í Mjóddina eða á vegginn í Bökkunum, hjá tattústofunni og Iceland. Þar er heill veggur tileinkaður úlfum. Hann var unninn með litlum pensli í skítaveðri, ég var auk þess með flensu,“ segir Eva Rós en verkin málaði hópurinn í sumar. 

„Vinnan gekk þannig fyrir sig að fyrst vorum við að skissa í Miðbergi. Við plönuðum hvar og hvernig við ætluðum að graffa og komum með uppástungur að veggjum sem okkur langaði að vinna með. Yfirmaðurinn okkar fékk svo leyfi fyrir okkur til að graffa á veggina. Við lögðumst því bara í verkin þegar hugmyndavinnan var búin,“ segir hún.

Frumskógur, eyðimörk og himingeimur

Und­ir­göng­in við Aust­ur­berg, á milli Breiðholtssundlaugar og Mið­bergs, voru gröffuð í frumskógarstíl, und­ir­göngin und­ir Breið­holts­braut­ina, á milli Bakka- og Selja­hverfs­ins, eru í anda eyði­merk­ur og þeg­ar geng­ið er í gegn­um und­ir­göng­in hjá Iceland við Vest­ur­berg er að sjá him­in­geim­inn, sól­ina og stjörn­ur. Einnig var vegg­ur­ hjá Selja­skóla skreytt­ur með ýms­um verk­um.

„Það hefur vantað aðstöðu í Breiðholti til að graffa. Það var alltaf gaman að kíkja niður í bæ þar sem Hjartagarðurinn var í öllu sínu veldi. Það væri mjög gaman ef það kæmi til svona leyfisveggur einhvers staðar í Breiðholtinu þar sem hægt væri að graffa að vild,“ segir Eva Rós. Hún kveðst jafnframt að lokum vonast til þess að fá aftur tækifæri að ári liðnu til að vinna við áhugamálið á nýjan leik.

Vegglistaverk Ragnars Kjartanssonar við Krummahóla 2.
Vegglistaverk Ragnars Kjartanssonar við Krummahóla 2. Árni Sæberg
Fagurlega skreytt undirgöng.
Fagurlega skreytt undirgöng. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert