Endurupptökubeiðni Jóns hafnað

Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson. mbl.is/Golli

Endurupptökunefnd innanríkisráðuneytisins hafnaði í júlí sl. beiðni Jóns Ólafssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. desember 2012. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Jón hefði verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá 1. september 1998 til 31. desember 2001.

Þann 19. nóvember 2013 fór Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður þess á leit fyrir hönd Jóns Ólafssonar að málið yrði endurupptekið. 

Í dómi Hæstaréttar frá desember 2012 segir, að Jón hafði krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður ríkisskattstjóra frá 2003 um að hann hefði skattalegt heimilisfesti og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi allt árið 1998 og áfram uns annað yrði ákveðið. Skattrannsóknastjóri ríkisins tilkynnti Jóni í febrúar 2002 að rannsókn væri hafin á skattskilum hans vegna tekjuáranna 1996 til 2001. Síðar það ár eða 22. nóvember barst þjóðskrá tilkynning frá Jóni um að hann og fjölskylda hans hefðu lögheimili í Bretlandi frá 1. september 1998 og var breyting þessa efnis skráð í þjóðskrá.

Hæstiréttur taldi ríkisskattstjóra hvorki hafa verið bundinn af því hvar lögheimili Jóns hafði verið skráð í þjóðskrá á því tímabili sem um ræddi né af framangreindri tilkynningu Jóns, heldur skipti fyrst og fremst skipti máli hvar hann hafi haft fasta búsetu á tímabilinu.

Ekki yrði þó framhjá því litið að Jón tilkynnti ekki um breytt lögheimili þegar hann að eigin sögn flutti lögheimili sitt til útlanda, heldur fyrst fjórum árum síðar. Þá taldi Jón fram til skatts eins og hann væri heimilisfastur og bæri fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi allt til ársins 2001 en í ágúst 2002 skilaði hann fyrst skattskýrslu þar sem hann lét þess getið að hann væri með skattalegt heimilisfesti í Bretlandi og teldi fram þar í landi.

Jafnframt átti Jón fasteign hérlendis þar sem hann bjó að jafnaði þegar hann dvaldi hér á landi og hafði sjálfur skýrt svo frá í tímaritsviðtali að hann og fjölskylda hans héldu heimili hér á landi, auk þess sem upplýst var að Jón dvaldi lengur hér á landi umrædd ár en í Bretlandi.

Því féllst Hæstiréttur á með íslenska ríkinu að Jón hafi verið heimilisfastur og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi lögum samkvæmt frá 1. september 1998 til 31. desember 2001.

Í úrskurði endurupptökunefndar, sem lá fyrir 8. júlí sl., segir að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. um endurupptöku séu eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Tekið er fram, að skilyrðum a-liðar og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé ekki fullnægt og skorti því á að öllum skilyrðum a – c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert