Fordæmalaus staða vegna Áslandsskóla

Áslandsskóli.
Áslandsskóli. Þorkell Þorkelsson

Áslandsskóli í Hafnarfirði er alfarið er í einkaeign og líklega eini skilgreindi hverfisskólinn sem ekki er í eigu sveitarfélags. Hafnarfjarðarbær mun að óbreyttu standa frammi fyrir fordæmalausri stöðu eftir nokkur ár enda þarf þá að semja við eigendur skólans eða senda börn í önnur skólahverfi.

Þetta kom fram í máli minnihlutans í fræðsluráði Hafnarfjarðar á fundi ráðsins í morgun. Fyrirkomulagið má rekja til samnings sem undirritaður var þann 16. mars 2000 milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og FM húsa ehf. um svokallaða einkaframkvæmd. Með samningnum tóku FM hús að sér byggingu og rekstur Áslandsskóla í einkaframkvæmd og Hafnarfjarðarbær leigði húsnæðið til 25 ára. Að leigutíma loknum verður húsnæði Áslandsskóla svo alfarið í einkaeigu fyrrnefnd fyrirtækis.

„Við samningsundirritun var ekkert hugað að þeirri stöðu sem bærinn yrði í að leigutíma loknum, enda þótt fyrirséð væri að sveitarfélagið þyrfti með einum eða öðrum hætti að tryggja viðunandi húsnæði til skólahalds í þessu hverfi til lengri framtíðar. Ákvarðanir um allar breytingar á núverandi skólahúsnæði, m.a. um nauðsynlega stækkun þess nú, er sömuleiðis háð samþykki eigenda skólans og þeirrar lóðar sem hann stendur á, þ.e. FM húsa ehf.,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

Samningar hafa ekki náðst við FM hús um byggingu og fyrirkomulag síðari áfanga Áslandsskóla. Því lögðu fulltrúar minnihlutans það til að sett verði af stað vinna sem miði að því að tryggja skólahald í hverfinu til framtíðar, með hagsmuni bæjarins og íbúa í Áslandi að leiðarljósi. „Sérstaklega verði skoðað hvort bygging nýs skóla annars staðar í hverfinu sé raunhæfur kostur.“

Tillögunni var frestað og létu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar fram eftirfarandi bókun: „Fulltrúar Bjartrar Framtíðar og Sjálfstæðisflokks ítreka og vísa í þá umræðu sem átt hefur sér stað á fundinum, að húsnæðismál skólastarfsemi í Áslandi eru til sérstakrar skoðunar þessa dagana og er áhersla lögð á að finna góða lausn á því til framtíðar með samstöðu og í sátt við alla hlutaðeigandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert