Forsetahjónin á Heimsþingi Clintons

Hillary Clinton og Ólafur Ragnar Grímsson í New York.
Hillary Clinton og Ólafur Ragnar Grímsson í New York.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú sækja Heimsþing Clintons, fyrrum forseta Bandaríkjanna, Clinton Global Initiative, sem hefst í New York í dag og stendur fyrrihluta þessarar viku. Á þinginu mun forseti vera meðal frummælenda í sérstökum málstofum um nýtingu hreinnar orku í þágu sjálfbærni og efnahagsþróunar og um hvernig áföll og kreppur geta leitt til nýsköpunar og framfara.

Í gær, sunnudaginn 21. september, tók forseti þátt í umræðum um loftslagsbreytingar og efnahagsþróun á málþinginu The New York Forum sem haldið var í bókasafni borgarinnar, The New York Public Library. Meðal annarra þátttakenda í umræðunum var Henry Paulson, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna og einn af höfundum nýrrar skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf í Bandaríkjunum.

Í lok síðustu viku tóku forsetahjónin þátt í málþingi sem bandaríski sjónvarpsmaðurinn og þáttastjórnandinn Charlie Rose efndi til í Aspen. Meðal þátttakenda í málþinginu voru fjölmargir forystumenn úr bandarískum stjórnmálum og viðskiptalífi, frumkvöðlar og vísindamenn, stjórnendur háskóla sem og forystumenn alþjóðlegra stofnana og fyrirtækja.

Forseti mun í New York einnig eiga fundi um þróun Norðurslóða, framlag Íslendinga til nýtingar hreinnar orku í öðrum heimshlutum sem og þátttöku ýmissa bandarískra aðila í Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í lok næsta mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert