Heilsugæslan verður hluti af Heilbrigðisstofnuninni

Heilsugæslustöðin í Hafnarstræti.
Heilsugæslustöðin í Hafnarstræti. Af vef velferðarráðuneytisins

Starfsemi Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri verður hluti af þjónustu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem verður til við sameiningu heilbrigðisstofnana 1. október. Starfsfólk heilsugæslunnar heldur óbreyttum launakjörum og réttindum við yfirfærsluna. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins.

Akureyrarbær hefur annast rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri frá árinu 1997, fyrst sem reynslusveitarfélag á grundvelli laga og síðar samkvæmt samningi við ríkið. Um síðustu áramót rann út samningur Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur heilsugæslunnar. Viðræður í framhaldinu leiddu til ákvörðunar um að færa reksturinn undir nýja sameinaða Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Sú stofnun verður til við sameiningu heilbrigðisstofnananna á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, heilsugæslustöðvanna á Dalvík og Akureyri og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

Jón Helgi Björnsson, nýskipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, fundaði með starfsfólki Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri í gær, ásamt fulltrúa velferðarráðuneytisins, til að kynna þeim breytingarnar. Um 70 manns starfa hjá heilsugæslustöðinni í um 50 stöðugildum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir í frétt ráðuneytisins að starfsfólk Heilsugæslunnar á Akureyri hafi unnið gott starf og veitt íbúum á starfssvæði stöðvarinnar góða þjónustu: „Það mun örugglega ekki breytast og ef eitthvað er mun heilsugæsluþjónustan batna þegar reksturinn verður orðinn hluti af stórri og öflugri rekstrareiningu með þeim faglegu og fjárhagslegu samlegðaráhrifum sem því fylgja.“

Flutningur á starfsemi heilsugæslunnar inn í nýja stofnun er gerður á grundvelli laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Launakjör og starfsskilyrði starfsfólksins halda gildi sínu við flutninginn og gildir sú regla allt þar til gildandi kjarasamningar hafa runnið sitt skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert