Kæra Ólafs fær viðeigandi meðferð

Kæra sem Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar, sendi ríkissaksóknara fyrir helgi var vísað til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þetta staðfestir saksóknari hjá ríkissaksóknara. Aðstoðarlögreglustjóri segir að erindið verði tekið til viðeigandi meðferðar.

Ólafur Haukur kærði Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, til ríkissaksóknara fyrir leka á trúnaðargögnum. Ólafur segir að gögnunum hafi verið lekið í pólitískum tilgangi. Í kærunni fullyrðir Ólafur að aðför ráðherra að skólanum hafi haft þau áhrif að 210 nemendur sem voru í skólanum misstu sinn vinnustað og að tuttugu starfsmenn hafi misst vinnuna. Einnig segir hann að skólinn og eigendur hans hafi orðið fyrir miklu fjártjóni.

Á móti hefur Katrín Jakobsdóttir,  fyrr­ver­andi mennta­málaráðherra, sagt kæru Ólafs Hauks tilhæfulausa. Þá segir hún ásakanir hans um pólitíska aðför á hendur honum og Menntaskólanum Hraðbraut rangar.

Sem áður segir sendi Ólafur Haukur kæruna til ríkissaksóknara sem hefur vísað erindinu til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, segir að málið verði skoðað og fái það viðeigandi meðferð hjá embættinu.

Frétt mbl.is: Ólafur kærir Katrínu

Frétt mbl.is: Segir kæruna tilhæfulausa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert