Mál föðurins ekki einsdæmi

Foreldrum og forráðamönnum barna í Hlíðunum í Reykjavík barst tilkynning í gær þar sem kom fram að grunur léki á að reynt hefði verið að lokka barn upp í bíl á horni Háuhlíðar og Hörgshlíðar. Barnið hljóp í burtu, ræddi við starfsmann frístundaheimilis skólans og tók lögregla skýrslu af barninu í kjölfarið.

Önnur tilkynning barst í morgun en komið hafði í ljós að um misskilning var að ræða. Faðir nemanda í skólanum hafði verið að bíða eftir barni sínu, séð að annað barn var á leiðinni yfir götuna fyrir framan bílinn og hvatti það með bendingu til að halda áfram yfir götuna, þ.e. að hann ætlaði að stöðva fyrir barninu. Barnið hélt aftur á móti að karlmaðurinn væri að benda því að koma til sín og varð hrætt.

Ekki í fyrsta skipti sem slíkur misskilningur verður

Að sögn Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er þetta ekki í fyrsta skipti sem misskilningur af þessu tagi verður, þ.e. að barn telji að ókunnugur hvetji það til að koma upp í bíl til sín.

Lögreglan bregðist alltaf við þegar upplýsingar sem þessar berast. Farið er yfir þau atriði sem liggja fyrir, t.d. hvort barnið geti lýst bílnum eða bílstjóranum.

Gunnar Rúnar segir að svo virðist sem mjög góð vitund sé um mál af þessu tagi og það sé jákvætt.

Lögreglan tók skýrslu af barninu en síðar kom í ljós …
Lögreglan tók skýrslu af barninu en síðar kom í ljós að um misskilning var að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert