Ótækt að fjöldi ríkisjarða séu í eyði

mbl.is/Hjörtur

Sjö þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem kveður á um að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið „að leita allra leiða til að koma ónýttum/ósetnum jörðum í ríkiseigu í notkun og auka með því byggðafestu og atvinnumöguleika í dreifðum byggðum landsins.“ Ennfremur að ráðherra greiði „fyrir ábúendaskiptum á ríkisjörðum í því skyni að stuðla að markvissri búsetu og uppbyggingu þessara jarða.“

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að það sé mat flutningsmanna hennar „að ótækt sé að fjöldi jarða í ríkiseigu sé í eyði, eða illa nýttur, á sama tíma og nýliðun í landbúnaði er erfiðleikum bundin. Þá er þörf fyrir meiri matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á mjólkurvörum og nautgripakjöti og sumar þessara jarða eru heppilegar til matvælaframleiðslu. Auk þess stækkar ört sá hópur til sveita sem sinnir þjónustu við ferðamenn og kann að vera hægt að skapa atvinnutækifæri og efla jaðarbyggðir með markvissri aðgerð sem þessari.“

Þá segir ennfremur í greinargerðinni að samkvæmt upplýsingum frá Jarðeignum ríkisins eigi ríkið um 473 jarðir. Af þeim sé talið að um 160 séu í eyði. „Þó er vakin athygli á því að margar eyðijarðir eru nýttar nú þegar, oft nytjaðar af bændum í nágrenninu til beitar eða slægna. Fram kemur á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að unnið hafi verið að nákvæmri skráningu jarða á forræði ráðuneytisins undanfarin ár.

Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert