„Þetta er allt á réttri leið“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er um tvenns konar eftirlit að ræða af hálfu ríkissaksóknara samkvæmt lögunum. Annars vegar að þeir sem hleraðir eru fái tilkynningu um það og í tengslum við hvaða mál og hins vegar að lögreglustjórar eyði gögnum. Þetta er auðvitað komið í gang en þar sem við ákváðum að miða við árið 2009 hafa ekki allar upplýsingar skilað sér frá lögreglunni um það hvernig staðið var að málum. En þetta er allt á réttri leið.“ 

Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is en hann fundaði í morgun ásamt Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um símahleranir lögreglu og eftirlit með þeim. Þess utan sé hluti eftirlitsins að bregðast við ef einhver sérstök tilefni eru til þess. Til að mynda kæra vegna framkvæmdar refsimála, þegar ábendingar berast um að ekki hafi verið staðið rétt að símahlerunum eða þegar grunur vaknar hjá embættinu sjálfu um slíkt.

Helgi bendir á að það sé ekki ólögmætt að taka upp samtöl verjenda og sakborninga þegar heimild til að hlera síma liggur fyrir. Ekki sé í raun hægt að komast hjá því. Hins vegar beri samkvæmt lögum að eyða slíkum upptökum um leið og í ljós kemur hverjir eigi í hlut. Umræðan hafi verið nokkuð á villigötum hvað þetta varðaði. Samtöl lögmanna og skjólstæðinga þeirra nytu þannig ekki meiri verndar en önnur samtöl. Ekki frekar en til dæmis samtöl við lækni eða prest. Hins vegar væru það samtöl sem ætti að eyða ef tengdust ekki viðkomandi máli. Best væri ef hægt væri að gera það sjálfvirkt en tæknin byði ekki upp á það eins og staðan væri í dag.

Hefur ekki eftirlit með dómurum

„Það hefur farist fyrir í nokkrum tilfellum að eyða slíkum gögnum hjá sérstökum saksóknara. En það voru mistök. Það eru engar vísbendingar um að hann hafi misnotað þessar upplýsingar,“ segir Helgi. Þannig hafi sérstakur saksóknari ekki vitað af þessum upptökum fyrr en lögmenn fengu að hlusta á upptökurnar og áttuðu sig á því að upptökur með þeim væri að finna þar. Ekki hafi þannig verið ætlunin að leyna neinu.

Hvað varðar hátt hlutfall samþykktra beiðna um símahleranir bendir Helgi á að eftirlit í þeim efnum heyri ekki undir ríkissaksóknara. Stundum mætti ætla af umræðunni að það væri á ábyrgð embættisins. Það væri alfarið dómara að meta hvort veita ætti slíka heimild eða ekki. Sjálfur hefði hann enga ástæðu til að ætla annað en að dómarar hefðu tekið faglega afstöðu til slíkra beiðna. Þetta væri ágætt dæmi um það hvað umræðan hefði farið út um víðan völl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert