Björgólfur á meðal grunaðra

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Björgólfur Guðmundsson, einn af aðaleigendum gamla Landsbankans, hefur stöðu grunaðs manns í franskri rannsókn á lánum sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun. Fimm ára rannsókn eins þekktasta rannsóknardómara Frakklands er lokið en óvíst hvort ákæra verður gefin út.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar segir, að rannsóknardómarinn Renaud van Ruymbeke hafi í síðustu viku gefið út lista yfir níu manns sem grunaðir séu í málinu. Þar á meðal eru Björgólfur Guðmundsson og Gunnar Thoroddsen, sem var yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg. 

RÚV vísar í frétt sem birtist á vefmiðlinum Paperjam í Lúxemborg fyrr í vikunni. Þar kemur fram að grunur sé um fjársvik og samningsbrot. 

Tekið er fram að hinir grunuðu hafi nú þrjá mánuði til að senda rannsóknardómaranum andmæli og í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort ákært verður eða málið fellt niður.

RÚV segir að Björgólfur hafi ekki viljað tjá sig í dag. Gunnar Thoroddsen segist fagna því að rannsókn málsins sé nú lokið. Sjálfur telur hann afar litlar líkur á að ákæra verði gefin út enda hafi engin gögn komið fram við rannsókn málsins sem bendi til þess að lögbrot hafi verið framin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert