Offitusjúklingar öðlast nýtt líf

Meðferðin á sjúkrahúsinu á Neskaupsstað tekur fjórar vikur, en í …
Meðferðin á sjúkrahúsinu á Neskaupsstað tekur fjórar vikur, en í henni er lögð áhersla á breytingar á lífsstíl, bætt mataræði og aukna hreyfingu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mörgum líður svo miklu, miklu betur eftir meðferðina hjá okkur. Það er gaman að sjá árangurinn sem fólk hefur náð hjá okkur,“ segir Anna Þóra Árnadóttir, yfirsjúkraþjálfari á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en þar er boðið upp á meðferð fyrir offitusjúklinga. Byrjað var að bjóða upp á slíka meðferð á endurhæfingarsviði sjúkrahússins árið 2007 og síðan þá hafa á annað hundrað manns notið hennar.

Anna Þóra segir hópinn fjölbreyttan og koma úr ýmsum áttum, en eitt eiga allir sameiginlegt og það er BMI-líkamsmassastuðull sem er hærri en 35. Það er skilgreint sem alvarleg offita. „Hingað hefur komið fólk á öllum aldri; allt frá fólki undir tvítugu og upp í fólk sem er yfir sjötugt. Konur hafa verið í meirihluta hingað til, en karlarnir eru að sækja í sig veðrið,“ segir Anna Þóra.

Í meðferðinni sem er fjórar vikur er lögð áhersla á breytingar á lífsstíl, bætt mataræði og aukna hreyfingu samkvæmt leiðbeiningum Lýðheilsustofnunar.

Flestir af Austurlandi

Fræðsla er stór hluti meðferðarinnar og sálfræðiaðstoð er veitt þeim sem á þurfa að halda. Meðferðin er áþekk þeirri sem boðið er upp á á Reykjalundi og sumir þeirra sem fara í meðferðina fara í skurðaðgerð að henni lokinni. Þeir sem taka þátt í meðferðinni liggja á sjúkrahúsinu meðan á henni stendur, en fara heim til sín um helgar. Til að eiga kost á þessu úrræði þarf tilvísun frá lækni. Flestir koma af Austurlandi, en einstaka koma annars staðar að af landinu. Að meðferðinni starfar þverfaglegt teymi sem í eru m.a. læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar.

Langtímabreyting á lífsgæðum

Talsverð eftirfylgni er að meðferð lokinni. Fylgst er með fólki í tvö ár eftir hana, m.a. með samtölum og innan árs eftir meðferð eru tvær endurkomur.

Árangurinn hefur verið mældur og Anna Þóra segir hann vera umtalsverðan. „Meðferðin virðist bera árangur til langs tíma fyrir 50-60% þeirra sem fara í hana. Nánast allir léttast bæði og styrkjast á þessum fjórum vikum. Ekki ná allir þeim árangri sem þeir þyrftu, en það sem við sjáum er langtímabreyting á lífsgæðum margra. Margir eru komnir í öngstræti en ná að snúa við blaðinu. Við erum ekki að gera neinn galdur, áherslan er á að fólk beri ábyrgð á sér sjálft. Það sem við gerum er að veita stuðning. Margir sem til okkar leita verða hreinlega að nýju fólki. Það er afskaplega skemmtilegt að upplifa það,“ segir Anna Þóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert