Hættulegur og gefur rangar upplýsingar

Fangelsi.
Fangelsi. Morgunblaðið/Hjálmar S. Brynjólfsson

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir karlmanni sem fluttur var til landsins í því skyni að afhenda hann íslenskum yfirvöldum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Maðurinn verður í haldi allt til 24. október næstkomandi eða þar til honum verður vísað brott af landi.

Lögregla telur rökstuddan grun til að ætla að maðurinn gefi rangar upplýsingar um hver hann er og hann hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta og kunni að grípa til frekari ofbeldis eða hótana um ofbeldi gangi hann laus. Í því samhengi er meðal annars vísað til hættumats greiningardeildar Ríkislögreglustjóra.

Þá er það mat lögreglustjóra að ætla megi að maðurinn reyni að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, enda hafi hann sýnt það að hann virði ekki tilkynningaskyldu. Þá hafi hann borið um það í framburðarskýrslu að vilja yfirgefa landið.

Upphaf málsins má rekja til þess að þann 13. maí 2011 hafi Fjölskyldu- og félagsþjónustan í Reykjanesbæ tekið á móti útlendingi og fjölskyldu hans sem óskuðu hælis. Í samskiptum félagsþjónustunnar og mannsins hafi fljótlega komið í ljós erfiðleikar sem hafi stigmagnast jafnt og þétt og loks leitt til þess að þann 29. apríl s.l. hafi hann verið lagður inn á geðdeild Landspítalans vegna gruns um að hann væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi.

Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur féllust á að rökstuddur grunur sé um að kærði gefi rangar upplýsingar um hver hann er og að hætta stafi af honum. "Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald í fjórar vikur eða uns dómur verður kveðinn upp í máli hans eða honum vísað brott af landi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert