Hlakkar til að geta farið á ball

Karen Helenudóttir ásamt Hermanni bróður sínum.
Karen Helenudóttir ásamt Hermanni bróður sínum.

Fyrir nokkrum mánuðunum fann Karen Helenudóttir, sautján ára Kópavogsbúi, oft til í bakinu og varð þreytt við minnsta álag. Hún var með mikla hryggskekkju en í sumar fór hún loksins í langþráða aðgerð þar sem skekkjan var minnkuð verulega. Nú dreymir Karen um að geta farið á ball og dansað með félögum sínum, ásamt því að geta hoppað á trampólíni.

Þegar mbl.is ræddi við Karen í byrjun júlí í sumar var hún nýkomin heim eftir aðgerðina sem gerð var á Landspítalanum mánudaginn 23. júní.

Hún sagði frá aðgerðinni, tilfinningunum sem hún upplifði fyrir og eftir hana, þakklætinu í garð læknanna en auðheyrt var á henni að hún liti björtum augum til framtíðarinnar.

Langir skóladagar geta tekið á

Nú eru rúmlega þrír mánuðir liðnir frá aðgerðinni og segir Karen í samtali við mbl.is að bataferlið og endurhæfingin hafi gengið mjög vel. „Þetta er eins og nýtt líf,“ segir Karen, glöð í bragði.

Hún segist ekki finna fyrir verkjum í bakinu en langir skóladagar geti þó tekið á. Karen stundar nám í Menntaskólanum í Kópavogi en þar er hver kennslustund 80 mínútur og því er hún stundum orðin dálítið þreytt í bakinu eftir daginn.

Karen segist hafa mætt miklum skilningi hjá skólanum og fái hún að fara úr tíma og leggja sig ef hún finnur til.

Spengja þurfti bein í hrygg Karenar en hún segir beinin nú gróið að mestu. Fyrst um sinn gekk Karen aðeins um íbúðina en núna er hún byrjuð að synda og fara í lengri gönguferðir.

Aðgerðin stöðvaði skekkjuna

Fyrir aðgerðina var hryggskekkjan um 58 gráður en núna er hún um 20 gráður. Karen bendir á að hefði hún ekki farið í aðgerð, þá hefði skekkjan haldið áfram að aukast út ævina. „Aðgerðin stöðvaði skekkjuna og á hún ekki að geta orðið meiri,“ útskýrir Karen.

Karen segir að vinirnir hennar hafi verið duglegir að styðja hana og hvetja eftir aðgerðina. „Það hjálpaði mikið að hafa vinina heima og þau ráku á eftir á mér að standa upp og ganga,“ segir Karen.

Karen segir sundið gagnast sér vel við að styrkja bakið og byggja upp vöðvana í bakinu. „Mig langar að geta farið á ball og dansað, en ég er ekki tilbúin að byrja alveg strax. Ég hef til dæmis aldrei hoppað eftir aðgerðina,“ bendir Karen á. Skrúfum var komið fyrir í baki Karenar og finnur hún enn fyrir þeim. Hún mun þó smá saman byggja upp vöðva, styrkjast og auka þolið.

Hundrað ræða saman vegna hryggskekkju

Fyrr á þessu ári stofnaði Karen Stuðningshóp hryggskekkju á Facebook.  Hóp­ur­inn er hugsaður sem umræðuvett­vang­ur fyr­ir þá sem eru með hryggskekkju. Fyrsta mánuðinn voru sex þátttakendur í hópnum, í byrjun júlí 56 en í dag eru um 100 manns skráðir í hópinn.

Karen segist halda vel utan um hópinn sem er lokaður. Hún hefur samband við alla sem biðja um aðgang í hópinn en hann er aðeins fyrir þá sem eru með hryggskekkju eða eiga börn með með hryggskekkju. Sjálfri fannst henni erfitt að segja frá því hvað hrjáði hana til að byrja með og hefur hún því fullan skilning að aðstæðum fólksins.

„Þarna eru margir sem eru með sömu lækna og deila sögum. Fólkið talar til dæmis um aðgerðina sína og hvernig það hefur það eftir hana,“ segir Karen og bætir við að sumir séu til dæmis hjá lækni sem ekkert vilji gera í skekkjunni, en hún var í sömu stöðu og hefur því innsýn inn í mál fólksins. 

Frétt mbl.is: Þakklát eftir langþráða aðgerð

Frétt mbl.is: Geri allt til að hjálpa syst­ur minni

Hér má sjá bak Karenar í dag, þremur mánuðum eftir …
Hér má sjá bak Karenar í dag, þremur mánuðum eftir aðgerðina. Úr einkasafni.
Hér má sjá bak Karenar um miðjan maí á þessu …
Hér má sjá bak Karenar um miðjan maí á þessu ári, áður en aðgerðin var gerð. Úr einkasafni.
Hér má sjá hrygg Karenar fyrir og eftir aðgerðina.
Hér má sjá hrygg Karenar fyrir og eftir aðgerðina. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert