Lögregla rannsakar málverkin

Hér má sjá annað af listaverkunum tveimur sem bjóða átti …
Hér má sjá annað af listaverkunum tveimur sem bjóða átti upp hjá Bruun Rasmussen í síðustu viku.

Rannsókn lögreglunnar í Kaupmannahöfn á tveimur málverkum, sem til stóð að selja á uppboði hjá uppboðshúsi Bruun Rasmussen fyrir viku og sögð voru eftir listamanninn Svavar Guðnason en voru fjarlægð af lögreglunni eftir að salan var kærð á þeim forsendum að verkin væru fölsuð, stendur yfir en engin niðurstaða liggur fyrir í málinu.

Þetta kemur fram í svari frá lögreglunni í Kaupmannahöfn við fyrirspurn mbl.is. Ekki er búist við að niðurstaða liggi fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir mánuð. Ólafur Ingi Jónsson forvörður kærði söluna á málverkunum fyrr í þessum mánuði en að hans sögn er þetta hvorki í fyrsta sinn sem umrædd verk eru boðin til sölu né í fyrsta sinn sem bent hafi verið á að þau væru fölsuð.

Mbl.is hafði einnig samband við uppboðshús Bruun Rasmussen og spurðist fyrir um það hvernig málið horfði við fyrirtækinu. Niels Raben, deildarstjóri nútímalistar, staðfesti að málverkin væru í vörslu lögreglu og uppboðshúsið myndi veita henni alla þá aðstoð sem það gæti við að upplýsa málið. Hvort verkin væru fölsuð eða ekki væri lögreglunnar að komast að.

Frétt mbl.is: Verk eftir Svavar sögð fölsuð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert