Neitar að taka mál upp að nýju

Neskaupsstaður
Neskaupsstaður mbl.is/Sigurður Bogi

Persónuvernd hefur synjað ósk um að tiltekið mál verði tekið upp hjá stofnuninni að nýju. Var talið að kvartandi hefði ekki nægilega brýna og lögmæta hagsmuni af því að málið, um kvörtun vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann, verði tekið upp á nýjan leik.

Aðdragandi að ákvörðun þessari er sá að þann 19. september 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá karlmanni. Sú kvörtun var þríþætt. Í fyrsta lagi að læknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað, hefði skoðað sjúkraskrá kvartanda í öðrum tilgangi en vegna meðferðar, í öðru lagi að læknirinn hefði miðlað upplýsingum úr sjúkraskránni til þriðja aðila, Siðanefndar Læknafélagsins og í þriðja lagi að siðanefndin hefði birt upplýsingar um kvartanda í úrskurði sínum.

Kvartandi var ósáttur við ákvörðun Persónuverndar og leitaði því til umboðsmanns Alþingis. Í áliti setts umboðsmanns kom meðal annars fram að kvartandi hefði ekki fengið skýra úrlausn um þann þátt kvörtunar sinnar er laut að uppflettingum í sjúkraskrá hans. Beindi umboðsmaður því til Persónuverndar að hún tæki afstöðu til þess, kæmi fram beiðni þess efnis frá kvartanda, hvort skilyrðum laga væri fullnægt til að stjórn Persónuverndar leysti úr því ágreiningsmáli sem kvartandi bar upp við stofnunina.

Hinn 22. maí 2014 kom kvartandi á skrifstofu Persónuverndar og óskaði þess að stofnunin tæki kvörtun hans til meðferðar að nýju. Fyrr í þessum mánuði tók Persónuvernd svo þá ákvörðun að synja ósk mannsins, þar sem hann hafi ekki nægilega brýna og lögmæta hagsmuni af því að málið verði tekið til meðferðar að nýju.

Ákvörðun Persónuverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert