Sviptur frelsi í sex tíma og beittur ofbeldi

Lögreglumenn höfðu uppi á árásarmönnunum í Breiðholti.
Lögreglumenn höfðu uppi á árásarmönnunum í Breiðholti. mbl.is/Þórður

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær tvo karlmenn í gæsluvarðhald til 3. október, en mennirnir eru sakaðir um frelsissviptingu og líkamsárás. Þeir héldu karlmanni nauðugum í nokkrar klukkustundir á laugardag og veittu honum mikla áverka í andliti. 

Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að málið tengist einhverskonar uppgjöri. Mennirnir þekkjast og hafa allir komið við sögu lögreglu áður.

Árásarmennirnir voru handteknir í Breiðholti seinni partinn á laugardag. Þeir höfðu þá verið með manninn í haldi í nokkrar klukkustundir en þeir höfðu hist í Fossvogi í Reykjavík fyrir hádegi. Þeir slepptu  manninum í nágrenni við miðborg Reykjavíkur síðdegis á laugardag. Maðurinn gerði lögreglunni viðvart og að sögn Ásgeirs hafði hann hlotið mikla áverka í andliti en hann er margbrotinn.

Rannsókn málsins stendur yfir og ekki fæst uppgefið hvert árásarmennirnir fóru með manninn og með hvaða hætti þeir veittu honum áverka. Unnið er að því að kortleggja hvað átti sér stað á þessum um það bil sex klukkustundum sem árásarmennirnir héldu manninum nauðugum.

Í gær lagði lögreglan fram kröfu um gæsluvarðhald yfir mönnunum á grundvelli rannsóknarhagsmuna í gær og varð héraðsdómur við því. Ekki er talið að fleiri einstaklingar séu viðriðnir málið.

Grunaðir um frelsissviptingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert