Þrír fá fasta stöðu aðjúnkts

Haraldur Daði Ragnarsson
Haraldur Daði Ragnarsson

Þrír stundakennarar hafa fengið fasta stöðu aðjúnkts á viðskiptasviði Háskólans á Bifröst. Þetta eru þeir Brynjar Þór Þorsteinsson, Haraldur Daði Ragnarsson og Ragnar Már Vilhjálmsson. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum á Bifröst.

Brynjar Þór Þorsteinsson er með M.Sc. í alþjóðaviðskiptum frá CBS viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og B.Sc.gráðu í viðskipafræði frá Háskólanum á Bifröst. Brynjar hefur verið stundakennari á Bifröst síðan 2012 og hefur kennt markaðsfræði, þjónustustjórnun og samningatækni á grunnstigi. Einnig hefur Brynjar kennt ýmis námskeið á símenntunarsviði Háskólans á Bifröst ásamt að vera leiðbeinandi og prófdómari í BS ritgerðum. Þá hefur Brynjar unnið að markaðsrannsóknum fyrir ýmis fyrirtæki í nýsköpun. Brynjar er yfirmaður markaðs- og samskiptamála Háskólans á Bifröst og hefur gengt því starfi síðan mars 2013.

Haraldur Daði Ragnarsson er með M.Sc. í hagfræði og stjórnun sem og í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálafræði, hvorutveggja frá CBS viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Haraldur Daði hefur kennt bæði í grunn-og meistaranámi við Háskólann á Bifröst og kennir einnig við Háskólann í Reykjavík. Þá hefur hann umtalsverða reynslu af því að halda fyrirlestra og erindi á innlendum og erlendum vettvangi. Haraldur Daði hefur sinnt margvíslegum stjórnunarstöðum og gegnt trúnaðarstörfum fyrir félög og fyrirtæki. Hann hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá Knattspyrnufélaginu Val, verið forstöðumaður hjá Tali og markaðssérfræðingur á einstaklings-og fyrirtækjamarkaði hjá Símanum, ásamt því að vinna við dagskrárgerð í útvarpi til margra ára. Haraldur Daði hefur víðtæka stjórnunarreynslu og er hann einn af stofnendum og meðeigendum í ráðgjafafyrirtækinu Manhattan Marketing.

Ragnar Már Vilhjálmsson hefur verið stundakennari við Háskólann á Bifröst síðan árið 2004 og kennt ýmsa markaðsfræðiáfanga, bæði í grunnnámi og meistaranámi, auk þess að leiðbeina fjölda nemenda við skrif BS og MS ritgerða. Ragnar er með M.Sc. gráðu í Business Performance Management frá Viðskiptaháskólanum í Árósum og BBA gráðu í Marketing frá The University of Texas í San Antonio. Ragnar hefur starfað við markaðsstjórnun frá árinu 1997, þar á meðal hjá OZ.COM, Sambíóunum og í 10 ár á markaðssviði Íslandsbanka. Í dag rekur Ragnar ráðgjafafyrirtækið Manhattan Marketing ásamt tveimur meðeigendum. 

Brynjar Þór Þorsteinsson
Brynjar Þór Þorsteinsson
Ragnar Már Vilhjálmsson.
Ragnar Már Vilhjálmsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert