Vinnumarkaðurinn á mannamáli

Hér má sjá Líf við kassann ásamt samstarfsmanni.
Hér má sjá Líf við kassann ásamt samstarfsmanni. Skjáskot úr myndbandinu

„Þessi herferð hefur sér langan aðdraganda, að því leytinu til að VR hefur undanfarin 20 ár beitt sér fyrir réttindum og skyldum á vinnumarkaði  og þá sér í lagi fyrir unga fólkið,“ segir Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR um herferðina VR-Skóli lífsins sem félagið hleypti af stað í Kringlubíói í dag.

Herferðin er ætluð til þess að upplýsa ungt fólk um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði. Herferðin er sett fram sem netnámskeið þar getur fólk skráð sig inn og tekið námskeiðið sem kennir helstu atriði þegar það kemur að vinnumarkaði eins og atvinnuleit, umsókn, starfsviðtal, uppsögn og skilning á launaseðli.

„Við höfum farið inn í marga grunn- og framhaldsskóla en nú ákváðum við að taka þetta skrefinu lengra og hefja þessa herferð,“ segir Ólafía.

VR-Skóli lífsins er netnám fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára með einni staðlotu í lokin. 

Að náminu loknu fá þátttakendur staðfestingu á að þeir hafi lokið VR-Skóla lífsins sem þeir geta látið fylgja með ferilskrá sinni þegar þeir sækja um starf.

Námskeiðið skiptist í 14 þætti. Í hverjum þætti er eitt myndband þar sem fylgst er með unglingsstúlkunni Líf og upplifun hennar af vinnumarkaðinum.

Fyrsti þátturinn sýnir Líf í atvinnuleit og svo heldur sagan áfram. Líf er ráðin sem kassastarfsmaður í stórmarkaði og fær áhorfandinn að fylgjast með ýmsum uppákomum þar og læra ýmislegt í leiðinni.

Þörf á aukinni fræðslu

Ólafía segir að réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði sé mál henni ofarlega í huga sem formaður VR. „Það er gríðarlega ánægjulegt fyrir mig og ég er mjög stolt að setja þessa herferð í gang með formlegum hætti og við vonumst til að ná eyrum unga fólksins.“

Aðspurð segir Ólafía mikla þörf fyrir aukna fræðslu um þessi atriði. „Það hefur mikið verið fjallað um þetta í fjölmiðlum og það er brýnt að fólk verði uppvíst um réttindi sín og skyldur. Við erum ekki aðeins að tala við unga fólkið á vinnumarkaði heldur líka við atvinnurekendur og fræða þá um hvernig þeir eiga að taka á móti sínu fólki. Jafnframt vonumst við til að höfða til foreldra eða forráðamanna.“

Hluti af samfélagslegu hlutverki stéttarfélaga

VR-Skóli lífsins verður helst auglýstur á þeim stöðum sem ungt fólk sækir til eins og á samfélagsmiðlum og bíóhúsum. VR vann með auglýsingastofunni Jónsson og Le'macks að herferðinni. „Hugmyndavinnan að þessu hefur tekið mikinn tíma. Bæði hefur starfsmenntanefnd VR haft veg og vanda að þessu og starfsfólk VR,“ segir Ólafía.

„Ég vona bara að við náum að breiða út boðskapinn, þar sem þetta er eitt af samfélagslegum hlutverkum stéttarfélaga. Það var mjög ánægjulegt og eiginlega bara frábært að heyra hvað viðtökurnar voru góðar hérna í salnum áðan.“

Fólk gefst oft upp á að skilja kjarasamninga

Fjölmargir aðilar frá samtökum launafólks og atvinnurekanda voru í Kringlubíói í dag til þess að kynna sér herferðina. Arndís Arnardóttir, mannauðsstjóri Hagkaupa var ein þeirra.

„Ég kem hingað til þess að kynna mér þessa herferð og velta fyrri mér möguleikunum, hvernig er hægt að kynna réttindi og skyldur fyrir hinum almenna starfsmanni og hvernig hægt sé að nýta þetta,“ segir Arndís.

Arndís telur að þörf sé á fræðslu um þessi mál. „Ungt fólk er ekki með réttindi sín eða skyldur á hreinu. Það vantar fræðslu og umhverfi kjarasamninga er það flókið að fólk gefst oft upp við að kynna sér þessi atriði. Þessi herferð kemur með þetta vel fram á þeirra máli. Þetta er ekki þungur erfiður texti eins og birtist í kjarasamningum ég held að þetta gæti komið sér vel fyrir ungt fólk.“

Aðspurð hvort að hún sjái fyrir sér að hennar vinnustaður muni notast við fræðsluefnið frá VR segir Arndís það alls ekki ólíklegt. „Nú þurfum við að sjá hvað VR gerir og hvernig þetta verður kynnt fyrir fólki.  En ég tel það mjög líklegt að við förum í samtarf með þeim.“

Hægt er að fræðast um herferðina á Facebook.

Stiklu úr myndböndunum má sjá hér að neðan.

Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert