Flugvélin ók stjórnlaust og hafnaði á girðingu

Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur Eggert Jóhannesson

Handbremsa hélt ekki nægjanlega vel er skýring á alvarlegu flugatviki í Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli fyrir rúmu ári. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Hinn 6. ágúst 2013 hugðist flugmaður fara í flug á flugvélinni TF-ZZZ frá Reykjavíkurflugvelli. Flugmaðurinn ók vélinni á eldsneytisplan í Fluggörðum, slökkti á hreyfli, setti klossa fyrir aðalhjól og handbremsuna á. Eftir að hafa sett eldsneyti á flugvélina hugðist flugmaðurinn gangsetja hana, en hann var einn.

Flugvélin er ekki útbúin ræsi og því þarf að handsnúa hreyfli í gang. Þar sem flugmaðurinn var einn krafðist gangsetningin þess að hann gæfi eldsneytisskot á hreyfil og stillti inngjöf í stjórnklefa, en færi svo fram fyrir flugvélina til að handsnúa loftskrúfunni með engan um borð.

Flugmaðurinn var í vandræðum með að koma flugvélinni í gang. Í þriðju tilraun rauk hún í gang og ók af stað. Flugmaðurinn náði ekki að komast upp í stjórnklefa flugvélarinnar og ók hún því stjórnlaust af stað og hafnaði á flugvallargirðingu. Rannsóknin leiddi í ljós að handbremsan hélt ekki nægjanlega vel, auk þess sem flugvélin hrökk úr handbremsu, að því er fram kemur í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert