Húsráðendur veri vakandi fyrir leka

Í þessari viku gengur hver lægðin á fætur annarri yfir …
Í þessari viku gengur hver lægðin á fætur annarri yfir landið með tilheyrandi votviðri og vindi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í þessari viku gengur hver lægðin á fætur annarri yfir landið með tilheyrandi votviðri og vindi. Flestir virðast hafa gripið til viðeigandi ráðstafana áður en veðrið gekk yfir í gær og morgun en full ástæða er til að vera áfram á varðbergi. Laufin fjúka víða og geta verið fljót að stífla niðurföll aftur þótt nýbúið sé að hreinsa frá þeim.

Í tilkynningu frá VÍS kemur fram að tryggingafélaginu hafi borist nokkrar tilkynningar um tjón vegna veðurs undanfarinn sólarhring. Flest þeirra stafi af vatni sem lekið hefur inn um glugga, í gegnum plötuskil, sprungur eða þak. „Orsök slíks leka má iðulega finna í ófullnægjandi viðhaldi og tekur húseigendatrygging ekki til þessara tjóna,“ segir í tilkynningunni. 

„VÍS hvetur því húsráðendur venju fremur til að vera vel vakandi fyrir hvers kyns leka, t.d. með því að setja ílát undir eða handklæði við. Það er til mikils að vinna að gæta þess að vatnið nái ekki að skemma út frá sér eins og gólfefni og húsbúnað. 

Þakrennur og niðurföll uppi á þaki þurfa ávallt að þjóna tilgangi sínum en gæta þarf fyllsta öryggis við hreinsun þeirra. Eins þarf að gæta þess að vatn eigi greiða leið að og ofan í önnur niðurföll utandyra, sér í lagi við kjallara og á svölum.  

Tilkynningar um foktjón berast yfirleitt seinna en um vatnstjón. Nokkrar slíkar hafa þó þegar borist vegna hvassviðrisins í gær. Ef fólk á enn eftir að ganga frá lausamunum er ekki ráð nema í tíma sé tekið, enda forkastanlegt að skapa slysa- og tjónahættu vegna hirðuleysis.

Ökumenn þurfa að haga ferðum sínum eftir aðstæðum og gæta vel að veðri, vindafari og færð. Sums staðar kann jafnframt að vera orðið tímabært að setja vetrardekk undir bílinn,“ segir í tilkynningu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert