Mál lögreglumanns til rannsóknar

Í lok ágúst vaknaði grunur um að lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði hefði brotið af sér í starfi. Hefur manninum nú verið vikið tímabundið úr starfi á meðan mál hans er til rannsóknar, en með rannsóknina fer sérstök rannsóknardeild lögreglustjórans á Eskifirði. 

„Uppi er grunur um að hann hafi brotið af sér í starfi og er málið nú til rannsóknar hjá okkur, segir Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, í samtali við mbl.is og bætir við að ekki sé hægt að fá frekari upplýsingar um meint brot lögreglumannsins á þessu stigi málsins.

Samkvæmt 35. gr. lögreglulaga var málið tilkynnt til ríkissaksóknara sem í kjölfarið fól lögreglustjóranum á Eskifirði meðferð málsins.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur lögreglumaðurinn unnið hjá embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði í nokkur ár.

Aðspurður segir Jónas ekki hægt að veita upplýsingar um hvenær rannsókn mun ljúka. „Ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi málsins. Þetta er fremur flókin rannsókn,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert