Metfjöldi í hjartadagshlaupinu

Hjartadagshlaupið var haldið í áttunda sinn í Kópavogi síðastliðinn sunnudag í tilefni alþjóðlegs hjartadags. Alls tóku 270 manns þátt að þessu sinni og er það metfjöldi. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Hjartavernd.

Hlaupið hófst við Kópavogsvöll og lá leiðin út á Kársnes og endaði á hlaupabrautinni á Kópavogsvelli. Boðið var upp á 5 og 10 km vegalengdir.

Í 5 km hlaupinu voru sigurvegarar Ingvar Hjartarson, sem hljóp á 16 mínútum og 15 sekúndum, og Andrea Kolbeinsdóttir, með tímann 18 mínútur 37 sekúndur.

Í 10 km hlaupinu sigraði Arndís Ýr Hafþórsdóttir í kvennaflokki, með tímann 38 mínútur og 43 sekúndur, og Geir Ómarsson, en hann hljóp á 35 mínútum og 43 sekúndum.

Í kjölfars hlaupsins var gengin Hjartaganga um Kópavogsdal undir leiðsögn Garðyrkjustjóra Kópavogs, Friðriks Baldurssonar.

Alþjóðlegi hjartadagurinn er haldinn 29. september ár hvert, en það er Alþjóðahjartasambandið sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á daginn. Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill um að halda daginn hátíðlegan.

Félögin hafa haldið upp á daginn með hjartadagshlaupinu og hjartagöngunni um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu. Frjálsíþróttadeild Breiðabliks sér um framkvæmd hlaupsins, að því er fram kemur í tilkynningu.

Frétt mbl.is: Hjartasjúkdómar eru raunveruleg ógn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert