Nauðsynlegt að skilja óvininn

Nagieb Khaji

„Ég hef leitað uppi og framleitt fréttir um talíbana af því að ég er á þeirri skoðun að í stríði sé nauðsynlegt að skilja óvininn,“ segir stríðsfréttamaðurinn Nagieb Khaja. „Hvernig á maður að geta bundið enda á stríð þegar maður hefur innst inni ekki hugmynd um afhverju óvinurinn grípur til vopna?“

Starf hins dansk-afganska Khaja hefur komið honum í lífshættu oftar en einu sinni. Árið 2008 var honum og ljósmyndara rænt af hópi talíbana sem hann hafði hugsað sér að fylgja eftir en þrátt fyrir þá ægilegu lífsreynslu hefur hann haldið ótrauður áfram í umfjöllunum sínum þar sem hann fylgir Talíbönum eftir.

Khaja er staddur hér á landi um þessar mundir í tilefni af RIFF þar sem hann kynnir heimildarmynd sína My Afghanistan og í dag sagði hann frá reynslu sinni á málþingi í Norræna húsinu. Í samtali við mbl.is sagðist hann alltaf hafa fundið fyrir sterkum tengslum við Afganistan enda ólst hann upp á afgönsku heimili uppfullu af afganskri menningu, þó svo að það hafi verið staðsett í Danmörku.

Djöflavæðing gagnast lítið

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að verða fréttamaður er sú að ég var þreyttur á umfjöllunum út frá staðalímyndum, þar sem klisjur og fordómar um minnihlutahópa í Danmörku og aðra hluta heimsins endurspegluðust, þrátt fyrir að helsti tilgangur fjölmiðla sé að upplýsa almenning,“ segir Khaja. „Ég vonast til að mín fréttamennska hjálpi til við að veita fólki skilning á því sem gerist í öðrum löndum og þá sérstaklega þar sem Vesturlönd reyna að leysa úr vandamálum með herafli.“

Khaja bendir á að Vesturlönd hafi reynt að sigrast á talíbönunum í Afganistan í 13 ár án árangurs og hafi aðeins viðurkennt nýlega að sáttaumleitanir séu nauðsynlegar.

„Margir innfæddra sem styðja talíbanana gera það ekki af því að þeir eru sammála hugmyndafræði þeirra heldur af því að þeir eru undir þrýstingi frá spilltum yfirvöldum sem kúga þá, eða af því að þeir vilja hefna fjölskyldumeðlima sem voru drepnir af vestrænum öflum,“ segir Khaja.

„Þetta eru manneskjur, alveg eins og við, með auðskiljanlegar ástæður til að grípa til vopna. Það er eitthvað sem er ótrúlega mikilvægt að vita, í staðinn fyrir að halda áfram djöflavæðingunni sem gagnast hvorki okkur né þeim.“

Khaja finnst stríðsfréttamennska gríðarlega mikilvæg, í raun eitt af því mikilvægasta sem hægt er að taka sér fyrir hendur, og segir hann það vera ástæðu þess að hann er tilbúinn til að taka eins mikla áhættu og raun ber vitni. „Ég hef líklega mjög sterka skapgerð sem gerir það að verkum að ég get hrist af mér óþægilegar upplifanir,“ segir Khaja.


Lokkaður í gildru af lausamanni

Það kom svo sannarlega til kasta umræddrar skapgerðar Khaja árið 2008. Þá lokkaði afganskur lausamaður (innsk. blm. í fréttamensku, e. freelance), sem hafði átt að tryggja öryggi hans, hann í gildru og honum var rænt af hópi talíbana sem fóru fram á lausnargjald upp á tvær milljónir Bandaríkjadala.

„Leiðtogum talíbanana var ekki skýrt frá mannráninu enda lágu greinilega efnahagslegar ástæður að baki því,“ segir Khaja. „Mér og afganska ljósmyndaranum mínum tókst að sannfæra einn vörðinn um að flýja með okkur gegn því að við sæjum um að hann og hans fjölskylda gætu öðlast nýtt líf utan Afganistan.“

Maðurinn sem aðstoðaði Khaja fékk dágóða upphæð að launum frá dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 sem Khaja vann fyrir á þeim tíma. TV2 bauð fjölskyldunni einnig aðstoð með húsnæði og nýtt líf í Danmörku en fjölskyldan afþakkaði slíkt og flutti sem flóttafólk til Pakistan. „Ég hef misst sambandið við þau síðan og veit ekki hvar þau eru niðurkomin í heiminum,“ segir Kahja.

Danska utanríkisráðuneytið var afar ósátt við áhættuna sem TV2 tók með því að senda Kahja til Afganistan en Khaja gefur lítið fyrir skoðun hins opinbera. „Þeim finnst fínt að fréttamenn taki áhættur annars staðar, þar sem Danmörk á ekki herafla, en í Afganistan eru þeir „fyrir tilviljun“ mun gagnrýnari þegar fréttamenn hreyfa sig úr seilingarfjarlægð frá danska hernum,“ segir hann. „Ég hef séð eftir því að hafa notað þennan tiltekna lausamann sem sveik mig en ég iðrast ekki fyriráætlana minna,” segir Kahja staðfastlega og því til sönnunar bendir hann á að hann hafi síðan gert tvær heimildarmyndir sem kröfðust mikilla samskipta við talíbanana. 


Afganar milli steins og sleggju

Eins og áður segir er Khaja hér á landi til að kynna heimildarmynd sína, My Afghanistan. Hann segist hafa viljað sýna Afgana eins og þeir eru í raun og veru en ekki sem þær skrumskældu staðalímyndir sem vestrænir fjölmiðlar sýna dagsdaglega. Myndin er að mestu leiti tekin upp á 30 litlar ferðamyndavélar sem Khaji bað almenna Afgani um að nota til að taka upp sitt daglega líf.

„Það er sjaldan að við sjáum þrívíðar persónur með blæbrigði, sem innst inni hafa sömu vonir fyrir sig og fjölskyldur sínar og við í vestri. Ég vildi sýna þau sem heilar manneskjur, sem við gætum samsvarað okkur við og skilið,” segir Khaja.

Hann segir að almenningur í Afganistan hafi ekki valið þetta stríð og sé fastur milli steins og sleggju. „Báðir aðilar vilja meina að þeir berjist fyrir Afgani en innst inni vill almenningur bara lifa sínu lífi í friði.“

Næsta verkefni Khaja er fyrir BBC Panorama þar sem hann hyggst heimsækja talíbana á nýjan leik, í þetta sinn í Wardak héraðinu sunnan Kabúl. Fréttapistillinn mun gefa innsýn í hugmyndir talíbanana um framtíð Afganistan, hvernig þeir stýra yfirráðasvæðum sínum og hvernig þeir stjórna lífi almennings og segir Khaja að það verði sjaldgæf innsýn í það sem gerist hinum megin víglínunnar.

Nagieb Khaja sagði frá reynslu sinni sem stríðsfréttamaður á málþingi …
Nagieb Khaja sagði frá reynslu sinni sem stríðsfréttamaður á málþingi í Norræna húsinu í dag. facebook.com/nagieb.khaja
Nagieb Khaji
Khaji gefur lítið fyrir hernaðaríhlutanir vesturlanda í Afganistan.
Khaji gefur lítið fyrir hernaðaríhlutanir vesturlanda í Afganistan. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert