Secret Solstice settar þrengri skorður

Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice.
Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice. Eggert Jóhannesson

Færri útisvið, þau snúi ekki að íbúðargötum, styttri dagskrá og betri kynning til íbúa. Þetta eru athugasemdir sem hverfisráð Laugardals gerir við tónlistarhátíðina Secret Solstice sem haldin var í Laugardalnum í sumar. Að uppfylltum þessum skilyrðum og fleirum megi halda hátíðina ða nýju.

Þetta kemur fram í fundargerð hverfisráðsins. Þar segir að hátíðin hafi almennt séð gengið vel. Skipulag hafi verið gott, gestir verið ánægðir, engin meiriháttar áföll komið upp og til dæmis hafi enginn leitað á Neyðarmóttöku Landspítala eftir tónlistarhátíðina.

Þá segir að formlegar kvartanir hafi ekki verið margar, eða nítján talsins. Engu að síður segir hverfisráðið að þær beri að taka alvarlega. Því eru eftirfarandi athugasemdir gerðar og eru þær skilyrði þess að ráðið fallist á að hátíðin verði haldin aftur næsta sumar.

  • Tónleikahaldarar verða að tryggja að öll hávaðamörk séu virt að fullu og leggja fram áætlun um hvernig þeir munu sjá til þess.
  • Til að draga frekar úr hávaða leggjum við líka til að útisviðum verði fækkað um eitt.
  • Flestar kvartanir íbúa komu frá Langholts- og Sunnuvegi. Tryggja verður að svið snúi ekki beint upp að þessum götum þannig að þau séu í beinni hljóðlínu frá tónleikastað.
  • Bæta þarf úr kynningu á hátíðinni og fyrirkomulagi hennar gagnvart íbúum. Kynningarfundur sem haldin var deginum áður en hún byrjaði núna í ár uppfyllti, að okkar mati, ekki þá kynningarskyldu sem að við teljum að hvíli á tónleikahöldurum.
  • Tónleikar í Skautahöllinni til kl. 05:00 gengur ekki upp svona nálægt íbúabyggð.
  • Dagskrá byrji seinna á daginn t.d. kl. 15:00 eða 16:00.
  • Útitónleikum sé lokið eigi síðar en kl. 23:30.
  • Leyfi fyrir hátíðinni verði veitt aðeins eitt ár í senn.

Ráðið segir að með þessu verði komið til móts við athugasemdir íbúa og að uppfylltum þessum skilyrðum sé hægt að halda Secret Solstice í Laugardalnum í sátt við þá.

Frétt mbl.is Dulúðin lá í dögginni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert