Skemmdarverk á lóð Stjórnsýsluhússins

Skemmdarverk voru unnin á lóð Stjórnsýsluhússins í Hvalfjarðarsveit um sl. helgi. Gler í sjö af ellefu lóðarlýsingarljósum voru brotin, bæði fyrir framan og aftan húsið. Þá voru stórir steinar skildir eftir hjá ljósunum.

Þetta kemur fram á vef Hvalfjarðarsveitar. 

Þar segir ennfremur, að síðastliðinn vetur hafi rúða verið brotin í byggingunni, rispuð rúða í anddyri og í fyrra haust hafi bifreið sveitarfélagsins verið skemmd þar sem hún stóð á bílastæðinu við inngang starfsmanna. Að öllum líkindum hafði verið hoppað upp á húddlokið og það mikið dældað. Nýlega hefur bíllinn svo verið rispaður á hægri hlið. Einnig hefur verið unnar skemmdir á jólaseríu.

„Við viljum biðja forráðamenn barna og unglinga í Melahverfi að minna þau á hvað sé rétt og rangt, því það er alls ekki rétt að eigur annarra séu skemmdar. Þá eru ábendingar um þau skemmdarverk sem hér eru tilgreind vel þegnar,“ segir á síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert