Yfir 40 skjálftar við Bárðarbungu

Eldgosið í Holuhrauni er enn í fullum gangi.
Eldgosið í Holuhrauni er enn í fullum gangi. mbl.is/RAX

Yfir 40 jarðskjálftar hafa verið staðsettir við Bárðarbungu frá miðnætti og rúmlega 30 í sjálfum ganginum. Eru þetta nokkuð fleiri skjálftar en höfðu mælst á sama tíma í gær enda vindur mun hagstæðari á þessum slóðum nú en í gær.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Það sem af er degi hefur enginn skjálfti náð fimm stigum, en þrír voru fjögur stig eða stærri. Allir voru þeir við norðanverða öskju Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn varð laust fyrir klukkan 15 í dag og mældist hann 4,7 stig. Hinir tveir mældust laust eftir klukkan þrjú í nótt, upp á 4 stig, og laust fyrir klukkan 8 í morgun, en hann var 4,2 stig.

Stærsti skjálftinn í ganginum, 4 stig, varð upp úr miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands virðist gangurinn í gosinu vera svipaður og undanfarna daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert