Bensínlaus á háannatíma

Aaalveg að verða bensínlaus?
Aaalveg að verða bensínlaus? Af Facebook-síðu lögreglunnar

Því miður kemur reglulega upp að bifreiðar verða bensínslausar og stöðvast á versta stað. Sérstaklega bagalegt er þegar þetta kemur upp á þyngsta umferðartíma en þá veldur slíkt stopp gríðarmiklum töfum sem valda keðjuverkandi áhrifum gegnum vegakerfið okkar. Þannig getur ein bifreið sem er stopp tafið umferð yfir í næsta bæjarfélag, þegar umferðin er sem þyngst. Í öllum bifreiðum er að finna bensínmæli og sérstakt gaumljós sem logar þegar eldsneyti er að klárast, skrifar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á Facebook-síðu sína.

Tvö tilvik hafa komið upp nýlega þar sem slíkt hefur gerst. Í fyrra skiptið var það í morgunumferðinni við Skeiðarvog, en þá lokaðist ein akrein vegna bifreiðarinnar sem var stopp. Við slíkar aðstæður skapast töluverð hætta, enda skapa umferðartafir oft nokkra hættu, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.

Seinna tilvikið gerðist í Gjánni í Kópavogi, á versta stað í síðdegisumferðinni. Á þeim stað er umferðin hröð og aðstæður þannig að ökumenn sjá ekki vel fram á veginn. Tveimur lögreglubifhjólum með bláum blikkandi ljósum var komið fyrir til að vara við hættunni en það dugði ekki og ók einn ökumaður utan í lögreglubifhjólið með þeim afleiðingum að það skemmdist. „Okkar fólk slasaðist blessunarlega ekki, þrátt fyrir að það hafi verið í töluverðri hættu,“ skrifar lögreglan á Facebook-síðu sína.

„Við hvetjum því ökumenn til að taka ekki óþarfa hættur og gæta þess að verða ekki bensínlausir í umferðinni og leggja þannig sjálfa sig og aðra í hættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert