Bótaréttur viðurkenndur í héraði

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt rétt nemanda til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands vegna tveggja þriðju hluta þess tjóns sem hann varð fyrir er hann varð fyrir slysi á skólalóð hinn 7. desember 2009.

Málið var dómtekið 9. september síðastliðinn.

Krafðist nemandinn þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands vegna líkamstjóns sem hann hafði orðið fyrir í slysi á skólatíma. Þá var þess einnig krafist að málskostnaður yrði greiddur af tryggingafélaginu.

Vátryggingafélag Íslands krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum en til vara að réttur nemandans til greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu verði eingöngu viðurkenndur að hluta.

Atvik málsins eru þau að viðkomandi varð fyrir meiðslum er hann rann til og féll á skólalóð, en hann var þá nemandi við ungliðadeild skólans. Eftir því sem næst verður komist varð slysið um klukkan 11.50 á körfuboltavelli, sem staðsettur er við vesturhlið skólabyggingarinnar.

Þegar slysið varð var nemandinn, ásamt skólafélaga sínum, á leið á sparkvöll, sem staðsettur er sunnan við skólabygginguna. Á leiðinni spyrntu þeir bolta á milli sín á framangreindu leiksvæði. Talið er að nemandinn hafi, þegar hann spyrnti boltanum, runnið til í hálku sem myndast hafi á malbikuðu yfirborði leiksvæðisins. Féll hann til jarðar. Við fallið hlaut hann opið beinbrot á hægri handlegg.

Skólafélagi hans datt einnig, þegar hann snerti boltann, en meiddist ekki við fallið eða a.m.k. ekki alvarlega. Kemur þetta fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.  Í kjölfar slyssins var nemandinn fluttur á sjúkrahús til skoðunar en síðar sama dag á slysa- og bráðamóttökudeild Landsspítalans í Fossvogi. Reyndist hann með brot á fjarenda hægri upphandleggjar og náði brotið inn í olnbogaliðinn.

Gekkst hann undir aðgerð á spítalanum daginn eftir. Þegar slysið varð var rekstraraðili með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands auk húseigendatryggingar og svonefndrar slysatryggingar skólabarna.

Með tölvupósti og bréfi sama dag fór lögmaður nemandans þess á leit við tryggingafélagið að það tæki afstöðu til bótaskyldu vegna framangreindra meiðsla. Félagið svaraði erindinu með tölvupósti þar sem segir m.a. að málið sé skráð bótaskylt. Á því var byggt fyrir dómi en í póstinum stóð orðrétt: „Umboð móttekið og málið er skráð bótaskylt.“

Í dómsorðum var réttur nemandans viðurkenndur og tryggingafélaginu gert að greiða honum 1.100.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert