Fjalla um ýmsar hliðar krabbameins

Hús Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð
Hús Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, fagnar 15. afmælisári sínu í dag og að því tilefni stendur félagið fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Ungt fólk og krabbamein“. 

Afmælismálþingið fer fram í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og hefst klukkan 13.

Málþingið er öllum opið og er markmið þess að fjalla um þær hliðar krabbameins sem sérstaklega tengjast ungu fólki. Formleg stofnun Neyðarsjóðs Krafts fer fram á málþinginu auk þess sem tilkynntur verður verndari sjóðsins.

Á málþinginu fjallar Kristján Oddsson, yfirlæknir og sviðsstjóri Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um ástæðu þess að ungar konur mæta síður í skoðun, Gunnar Bjarni Ragnarsson, læknir og sérfræðingur í lyf- og krabbameinslækningum, fjallar um afleiðingar munntóbaksnotkunar og annarra efna sem margt fólk setur uppí sig, Vigfús Bjarnason, sjúkrahúsprestur, fjallar um samskipti í fjölskyldunni þegar foreldri greinist með krabbamein, Elísbet Lorange, listmeðferðarfræðingur, fjallar um stuðning við aðstandendur, Gyða Eggertsdóttir, sálfræðingur og Berglind Ósk Birgisdóttir, hjúkrunarfræðingur tala um möguleika krabbameinsgreindra til að eignast börn og Jón Eggert Víðisson, MA í alþjóðasamskiptum og stjórnarmaður í Neyðarsjóði Krafts, fjallar um greiðsluþátttöku ungs fólks vegna læknis- og lyfjameðferðar og ber þann kostnað saman við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Kári Örn Hinriksson, krabbameinsbardagamaður til 10 ára og blaðamaður, lýsir einnig upplifun sinni af heilbrigðiskerfinu.

Málþingið, sem fer fram í Ráðgjafarþjónustu KÍ, Skógarhlíð 8, Reykjavík, er öllum opið og án endurgjalds.

Heimasíða Krafts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert