Gefur áfram kaffi út um gluggann

Sverrir mun áfram bjóða upp á kaffi út um eldhúsgluggan …
Sverrir mun áfram bjóða upp á kaffi út um eldhúsgluggan heima hjá sér að Baldursgötu 26 í Reykjavík.

Kaffifrömuðurinn Sverr­ir Rolf Sand­er tilkynnti í dag að hann muni halda áfram að gefa kaffi gegn frjálsum framlögum í gegnum gluggann á Baldursgötu 26. 

Sverrir hefur rekið Puffin Coffee kaffihúsið í gegnum gluggann á heimili sínu síðan í apríl. Þjónusta Sverris er sérstök fyrir það leiti að hann gefur bæði kaffið og alla vinnu sína auk þess sem kaffihúsið er opið á handahófskenndum tímum. Þær fjárhæðir sem viðskiptavinir kjósa að láta af hendi rakna voru upprunalega ætlaðar sem áheit á Sverri sem tók þátt í hjólakeppni í Bretlandi í september til styrktar rannsókna á einhverfu. Framvegis munu framlögin hinsvegar renna beint til Einhverfusamtakanna.

Í tilkynningu á Facebook síðu Puffin Coffee kemur fram að Sverrir hafði hugsað sér að loka glugganum þann 1. október. „Aftur á móti hef ég fengið mikið af fyrirspurnum um hvort ég ætli ekki örugglega að halda þessu ævintýri áfram og sumir hafa verið svo elskulegir að senda mér bréfpóst. Eftir mikla umhugsun hef ég ákveðið að Puffin Coffee mun halda áfram í vetur,“ segir í tilkynningunni.

Með tilkynningunni lætur Sverrir fylgja mynd af bréfi sem honum var sent þar sem honum er þakkað fyrir að veita fólki innblástur og veita sendandanum styrk.

Hefur gefið yfir þúsund kaffibolla

Selur kaffi út um gluggann heima hjá sér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert