Hörður samræmir störf lögreglunnar

Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri færir sig um set í eitt ár.
Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri færir sig um set í eitt ár. mbl.is/Júlíus

Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, mun í næstu viku taka að sér verkefnastjórn hjá Ríkislögreglustjóra í eitt ár og hefur Alda Hrönn Jóhannsdóttir verið settur aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í fjarveru Harðar. 

Hörður fær það hlutverk að efla og samþætta alla starfsemi lögreglunnar og sjá til þess að fjármunir nýtist sem best í ljósi þeirra breytinga sem eru framundan. Um áramótin verður lögregluembættum landsins fækkað úr fimmtán í níu. Þau voru 24 talsins áður en þeim var fækkað árið 2007.

Hörður, sem hefur starfað sem lögreglumaður í 38 ár, mun hefja störf hjá ríkislögreglustjóra 8. október nk. Verkefnið er til eins árs og verður hann áfram aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu 

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur upplýst starfsfólk lögreglunnar um þessar breytingar.

Sér um innleiðingu á nýju verklagi vegna heimilisofbeldismála

Alda Hrönn, sem er yfirlögfræðingur hjá embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum, var sett sem aðstoðarlögreglustjóri í dag. Hún mun hafa yfirumsjón með innleiðingu á nýju verklagi vegna heimilisofbeldismála hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur starfað innan lögreglunnar frá 1999 og var m.a. settur saksóknari efnahagsbrotamála um eins á árs skeið. Setning hennar tekur gildi í dag. Samhliða þessu mun Alda starfa áfram á Suðurnesjum til 1. nóvember til að ljúka verkefnum sínum þar.

„Það vantaði mann í skipulagsmál og vinnu. Það blasir við að kerfið er að breytast, það er verið að fækka embættunum. Um áramót koma ný embætti og stærri en færri. Það þarf að huga að því að samræma allt skipulag og koma í veg fyrir tvíverknað og svo framvegis. Og leita þarf leiða til að auka enn meira samstarf á milli embætta,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Hörður tekur fram að ein lögregla sé starfandi í landinu. Búa þurfi um hnútana með þeim hætti að lögreglan starfi sem ein heild og að fjármagn nýtist sem best.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, verður settur aðstoðarlögreglustjóri.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, verður settur aðstoðarlögreglustjóri.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert