Olli alvarlegum líkamsáverkum

mbl.is/Hjörtur

Þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun mál ríkissaksóknara gegn karlmanni á fertugsaldri fyrir hegningar- og umferðalagabrot en manninum er gefið að sök að hafa undir áhrifum áfengis ekið eftir Reykjanesbraut á 178 kílómetra hraða á klukkustund í byrjun mars 2012 og misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að farþegar í bifreiðinni hlutu alvarlega líkamsáverka. Leyfilegur hámarkshraði á svæðinu er 80 km/klst.

„Með þessu raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleiðum og stofnaði á ófyrirleitin hátt lífi og heilsu annarra vegfarenda og farþega bifreiðarinnar í augljósan háska, og ók bifreiðinni þótt hún væri ekki í ökuhæfu ástandi vegna ástands hjólbarða sem voru ásamt felgum af mismunandi gerðum, og lélegu ástandi hemla þar sem hemladiskar voru slitnir og of þunnir,“ segir í ákæru ríkissaksóknara. Þegar ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni hafi hún farið út af veginum, rekist á ljósastaur og endað á hvolfi nálægt brúnni þar sem Kaldárselsvegur liggur yfir Reykjanesbraut.

Fram kemur að farþegi í aftursæti bifreiðarinnar hafi kastast út úr henni og hlotið samfallsbrot á brjósthryggjarlið sem hafi valdið „alvarlegum mænuskaða sem hafði í för með sér varanlega lömun, umfangsmikinn áverka á milta, opin sár á enni og bol, brot á fjórum rifbeinum, brot á öllum vinstri þvertindum í lendarhrygg ásamt blæðingum í aðliggjandi mjaðmar og lundarvöðvum, brot á bringubeini nálægt mótum viðbeins og bringubeins og brot sem fór í gegnum hægra herðablað með talsverðri tilfærslu milli brotahluta.“

Annar farþegi, sem setið hafi í farþegasæti fram í bifreiðinni, hafi hlotið „opið sár í hársverði, brot á kinnbeinum, brot á augntóftargólfi, brot á miðnesi, brot á kjálkabeini, mar á auga, brot á brjósthryggjarlið, brot á hálshryggjarlið og loftbrjóst vegna áverkanna.“ Tveir aðrir farþegar hafi ennfremur hlotið mar, tognanir og ýmsa minni áverka. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar. Farþegarnir tveir, sem urðu fyrir alvarlegum líkamsáverkum, fara samtals fram á rúmar 6 milljónir króna í miskabætur auk vaxta og málskostnaðar.

Maðurinn neitaði sök fyrir héraðsdómi í morgun. Verjandi hans fór fram á að rannsókn yrði gerð á blóðsýni sem tekið var úr manninum vegna ölvunarinnar á þeim forsendum að sýnið væri ekki úr honum. Dómari mun taka afstöðu til þess 22. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert