Rigning í 22 daga af 30

Sumir eru alsælir með rigninguna
Sumir eru alsælir með rigninguna Styrmir Kári

Tíðarfar í september telst hagstætt og var óvenjuhlýtt, hlýjast að tiltölu norðan- og austanlands þar sem hiti var víða meir en 2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og meir en þremur stigum ofan meðalhita 1961 til 1990. Á Dalatanga er þetta hlýjasti september frá upphafi mælinga 1938 og sá þriðji hlýjasti í Grímsey en þar hefur verið mælt frá 1874. Svalast að tiltölu var á Suðvesturlandi þar sem hiti var þó meir en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Óvenju úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt á Norðausturlandi, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Meðalhiti í Reykjavík var 1,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðalhita síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti 2,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 1,5 ofan meðaltals síðustu 10 ára.

Á Akureyri var meðalhitinn 3,6 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 2,3 stigum ofan meðaltals síðustu tíu ára. 

22,6 stig á Skjalþingsstöðum

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Seyðisfirði, 10,4 stig, en lægstur á Brúarjökli, 2,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 7,0 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var hitinn að tiltölu hæstur á Hallormsstaðarhálsi, 2,6 stig yfir meðallagi, í byggð var hann að tiltölu hæstur á Reykjum í Fnjóskadal, 2,5 stig yfir meðallagi.

Lægstur var hitinn að tiltölu í Skaftafelli þar sem hitinn var 0,1 stig yfir meðallagi. Á öllum öðrum stöðvum var hiti meir en 0,5 stigum ofan meðallags.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,6 stig á Skjaldþingsstöðum þann 14. Sami hiti mældist á mönnuðu stöðinni á staðnum sama dag. Lægstur mældist hitinn -8,8 stig á Brúarjökli þann 28. Í byggð mældist hitinn lægstur á Brú á Jökuldal -4,9 stig þann 29. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum -1,8 stig þann 26.

Mesta úrkoma síðan 2008

Mjög votviðrasamt var um allt sunnan- og vestanvert landið en fremur þurrt sums staðar norðaustanlands.

Í Reykjavík mældist úrkoman 153,0 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma áranna 1961 til 1990 og mesta úrkoma í september frá 2008. Í Stykkishólmi mældist úrkoman nú 70,4 mm sem er 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 27,1 mm og er það 69 prósent meðalúrkomu septembermánaðar á árunum 1961 til 1990.

Úrkoman mældist 230,4 mm á Stórhöfða, það er 76 prósent umfram meðallag.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 22 daga í Reykjavík. Það er tíu dögum fleiri en í meðalári og hafa aldrei mælst fleiri í september. Einu sinni hafa þeir verið jafnmargir og nú, það var 1969. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 6 daga á Akureyri, það er tveimur dögum undir meðallagi.

Í Reykjavík rigndi 22 daga í september á meðan einungis …
Í Reykjavík rigndi 22 daga í september á meðan einungis rigndi sex daga á Akureyri mbl.is/Kristinn
Það hefur verið nauðsynlegt að klæðast regnjakka í 22 daga …
Það hefur verið nauðsynlegt að klæðast regnjakka í 22 daga af 30. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert