Skilningurinn ekkert að batna

Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason.
Sigurður G. Guðjónsson og Sigurjón Árnason. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Nú er maður farinn að skilja af hverju maður skilur ekkert í þessu,“ sagði Reimar Pétursson, verjandi Sindra Sveinssonar, undir hádegi á öðrum degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi bankastjóra og þremur starfsmönnum Landsbankans. Framsetning gagna þykir verjendum sérstök.

Eins og fram hef­ur komið ákærði sér­stak­ur sak­sókn­ari Sig­ur­jón Árna­son, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, Ívar Guðjóns­son, fyrr­ver­andi for­stöðumann eig­in fjár­fest­inga sama banka, og tvo starfs­menn eig­in fjár­fest­inga, þá Júlí­us S. Heiðars­son og Sindra Sveins­son.

All­ir eru þeir ákærðir fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Á öðrum degi aðalmeðferðarinnar hélt skýrslutaka yfir Júlíusi áfram og var sem fyrr notast við kauphallarhermi sérstaks saksóknara. Hermirinn gerir saksóknara kleift að skoða hvern viðskiptadag fyrir sig hjá Landsbankanum á umræddu tímabili og er hann byggður á yfirliti frá kauphöllinni yfir viðskipti með og tilboð í hlutabréf í Landsbankanum á tilteknu tímabili.

Hins vegar hafa verjendur ítrekað kvartað yfir því að þeir skilji illa framsetningu gagna með herminum. Undir hádegi í dag, eftir að saksóknari hafði farið yfir hvern viðskiptadag frá mars 2008 til júlí 2008, kröfðust verjendur skýringa á tilteknum táknum í herminum sem þeir sögðust ekki hafa tekið eftir áður. Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns, spurði þá hvort ekki þyrfti að fara yfir heila klabbið á nýjan leik, frá 1. nóvember, og uppskar hlátur dómara og verjenda.

Tilvitnuð ummæli Reimars í upphafi greinarinnar komu þá í kjölfarið og Júlíus, sem svarað hefur spurningum um ýmis atriði sem birtast í herminum undanfarna tvo daga sagði þá: „Ég er eiginlega furðu lostinn eftir að hafa áttað mig á þessu.“

Dómarar ákváðu að hádegishlé væri góð hugmynd á þessum tímapunkti og munu aðilar málsins því væntanlega nota það til að glöggva sig á nýjustu vendingum í málinu. Það ætti að skýrast eftir hádegið hvort saksóknari þurfi að endurtaka þær spurningar sem grundvallast hafa á kauphallarherminum og hvort vinnan í morgun og eftir hádegi í gær sé fyrir bí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert