Í leghálsskoðun með GoPro

Grínistanum Sögu Garðarsdóttur er hreint ekki fisjað saman. Í tilefni af bleikum október brá hún sér í leghálsskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins með GoPro-myndavél á hausnum til þess að sýna fram á hversu einfalt og fljótlegt það er að fara í leghálsskoðun.

Konum á aldrinum 23 til 65 er boðið að koma á Leitarstöðina á þriggja ára fresti og afar mikilvægt er að láta ekki lengri tíma líða á milli heimsókna. Dánartíðni vegna leghálskrabbameins hefur lækkað um 90% frá því að skipuleg leit hófst hér á landi enda gerir regluleg leit það að verkum að auðvelt er að fylgjast með frumubreytingum.

Meginorsök frumubreytinga og krabbameins í leghálsi er HPV-veiran. Flestir sem stunda kynlíf smitast af HPV einhvern tíma á lífsleiðinni en ekki allir finna fyrir eða fá einkenni. Eina leiðin fyrir konur til að vita hvort HPV-smit leiði til frumubreytinga er að mæta reglulega í leghálsskoðun.

Mörg stéttarfélög og fyrirtæki taka þátt í kostnaði hjá Leitarstöðinni fyrir sína félagsmenn og starfsmenn. Konur geta óskað sérstaklega eftir því að vera skoðaðar af konu eða karli og Leitarstöðin reynir að verða við slíkum óskum eftir bestu getu. 

Hægt er að panta tíma hjá leitarstöðinni í síma 540-1919 og eins og Saga segir þá hefur engin kona afsökun fyrir því að láta ekki kíkja á klobbann á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert