35% látin innan fimm ára

Á rannsóknartímabilinu létust alls 38 einstaklingar þar sem hægt var …
Á rannsóknartímabilinu létust alls 38 einstaklingar þar sem hægt var að finna tengsl við notkun vímuefna í æð. AFP

Á fimm ára tímabili voru 57 sprautufíklar lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítalans. Af þeim létust níu á gjörgæslu eða 16%. Innan fimm ára voru 11 látnir til viðbótar eða alls 35% þeirra sem lagðir voru inn í tengslum við sprautufíkn sína. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein sem birt er í Læknablaðinu sem kom út í dag.

Um 1% innlagna á gjörgæsludeildir Landspítala er vegna fylgikvilla af neyslu fíkniefna í æð. Þetta er ungur sjúklingahópur sem oftast leggst inn vegna alvarlegra eitrana eða sýkinga og er með mjög skertar lífslíkur miðað við sama aldurshóp, en 35% hans voru látin innan fimm ára.

Umfang vandans álíka og annars staðar á Norðurlöndum

Niðurstöður réttarefnafræðilegra rannsókna leiða í ljós að umfang vandans sé sambærilegt og hjá öðrum norrænum þjóðum. Áhyggjuefni er hve algengt er að nota uppleyst lyfseðilsskyld lyf sem vímuefni til inngjafar í æð, segir í greininni.

Innlagnir voru oftast vegna eitrunar (52%) eða lífshættulegrar sýkingar (39%). Miðgildi aldurs var 26 ár og 66% voru karlar. Eitranir voru algengastar, oftast vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Dánartíðni á sjúkrahúsi var 16% og fimm ára dánartíðni 35%. Meðaltími frá útskrift að andláti var 916 ± 858 dagar.

Alls fundust 38 krufningarskýrslur einstaklinga með sögu um notkun vímuefna í æð á tímabilinu fyrir aldurshópinn 15-59 ára. Algengasta dánarorsök var eitrun (53%) sem oftast var vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum (90%) og oft voru mörg efni tekin samtímis. 

Alls létust níu einstaklingar í sjúkrahúslegu, allir á gjörgæsludeild, og dánarhlutfall því 16%, meirihlutinn var karlar eða sex talsins. Dánarorsakir voru heilaskaði (2), hjartaþelsbólga (2), heilahimnubólga (1), fjöláverki (2) og fjölkerfabilun (2).

700 nota vímuefni í æð hér á landi

„Heilsufarsleg vandamál tengd notkun ávana- og fíkniefna eru vel þekkt um allan heim en sjúkdómsbyrði af slíkri neyslu er mest hjá þeim sem sprauta sig í æð. Jafnframt er dánartíðni hjá slíkum neytendum há og óvænt dauðsföll tengjast að jafnaði ofskammti lyfja eða sjálfsvígum,“ segir í greininni en þar bent á að áætlað sé að 11-21 milljón manns noti vímuefni í æð í heiminum.

Samkvæmt ársskýrslum SÁÁ er talið að um 700 manns noti vímuefni í æð hér á landi og samkvæmt því ætti algengi að vera 3,5/1000 íbúa 15-64 ára. Þetta er svipað og birt hefur verið fyrir Danmörku (4,4/1000 íbúa 15-64 ára) og Noreg (3,3/1000 íbúa 15-64 ára). 

„Þessar tölur byggjast á tíðni innlagna vegna vímuefnanotkunar en ná ekki til þeirra sem misnota lyf og tengjast ekki heilbrigðiskerfinu. Vandamálið er því hugsanlega viðameira. Mikilvægt er að afla upplýsinga um þennan hóp einstaklinga hér á landi svo hægt verði að átta sig á umfangi vandans.

Þar sem flestir sem fá verulega alvarlega fylgikvilla vegna vímuefnanotkunar í æð koma til innlagnar á gjörgæsludeildir Landspítala gefur það möguleika á að nálgast upplýsingar um þann hóp og kanna horfur þeirra, en slík samantekt hefur ekki verið gerð áður hér á landi.

Réttarkrufning er að jafnaði gerð þegar andlát eru talin tengjast misnotkun ávana- og fíkniefna og öll lífsýni sem tekin eru við slíkar krufningar eru send á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði til greiningar. Úr skýrslum rannsóknastofunnar er því hægt að afla upplýsinga um fjölda látinna einstaklinga sem nota vímuefni í æð og dánarorsakir þeirra.

Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um alvarlegustu afleiðingar notkunar vímuefna í æð frá tveimur sjónarhornum: Í fyrsta lagi með því að kanna horfur þeirra einstaklinga sem höfðu lagst inn á gjörgæsludeild Landspítala vegna afleiðinga neyslu vímuefna í æð á fimm ára tímabili og í öðru lagi að fara yfir réttarefnafræðilegar skýrslur einstaklinga með sögu um notkun vímuefna í æð sem höfðu látist á sama tímabili og fá þannig fram dánartíðni,“ segir ennfremur en greinina er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert