„Okkur fannst við frábærir“

Sigurjón (t.h.) fer yfir stöðuna með verjanda sínum, Sigurði G. …
Sigurjón (t.h.) fer yfir stöðuna með verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni, í réttarsal. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurjón Árnason, fyrrverandi forstjóri Landsbankans, hefur setið fyrir svörum saksóknara á sjötta degi aðalmeðferðar í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni og þremur undirmönnum hans. Sigurjón hefur varist af krafti og gagnrýnir rannsókn málsins harðlega.

„Það hentar ekki sögunni sem ykkur langar að búa til," er dæmi um ummæli sem Sigurjón hefur látið falla er hann svaraði spurningum saksóknara, en Sigurjón segir að öllu hafi verið snúið á haus í málinu og aldrei hafi verið jafn hátt reitt til höggs gagnvart blásaklausu fólki að sanna eitthvað sem sé ekki til. Hann gagnrýnir það hve þröngt tímabil hafi verið skoðað í ákærunni og myndaðist ákveðinn núningur á milli Sigurjóns og saksóknara yfir því.

„Maður fær á tilfinninguna að maður hafi bara verið einn og gert allt. Það er algjör misskilningur,“ sagði hann og vísaði til þess að hann hefði ekki einn borið ábyrgð á starfsemi bankans.

Gat ekki skoðað hvert smáatriði

Spurður út í einstök yfirlit, m.a. svokallað 4-15 yfirlit sem barst honum og öðrum stjórnendum bankans sem áhættustýring bankans bjó til, sagði Sigurjón að það yfirlit hefði komið til hans, en honum þótti nóg að fá munnlega skýrslu um stöðuna, m.a. yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér, í samþjöppuðu formi á vikulegum fundum fjármálanefndar Landsbankans. Sigurjón stýrði flestum fundum nefndarinnar, sem Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sat einnig ásamt öðrum stjórnendum bankans.

Sigurjón tók fram, að bankastjóri, sem stýrði 3.000 manna banka sem var með starfsemi í 15 löndum, hefði ekki getið skoðað alla flipa í smáatriðum. Það hefði ekki gengið upp.

Sigurjón kveðst vera saklaus og segir að þau viðskipti sem hafi verið stunduð á ákærutímabilinu hafi verið eðlileg. Horfa verði á heildarmyndina en ekki taka eitthvað hlutmengi líkt og saksóknari hafi gert, annars kunni menn ekki að stjórna fyrirtæki.

„Ég kann að reikna“

„Ég kann að reikna!“, „Þetta er algjör snilld!“, „Loksins kemst ég að!“ og „Okkur fannst við frábærir, það var bara málið!" eru á meðal þeirra ummæla sem Sigurjón hefur látið falla frá klukkan 10, þ.e. eftir að hann lauk við að ávarpa dóminn og hóf að svara spurningum, en hann var þá kominn í „gírinn“, eins og Sigurjón orðaði það sjálfur.

Hann sagði að sem bankastjóri hefði hann ávallt haft trú á bankanum. „Ég var sannfærður fram á síðustu stundu að við myndum lifa þetta af,“ sagði Sigurjón og bætti við að þegar ríkið tók Glitni yfir í lok september 2008 hefði ekki verið aftur snúið.

Spurður um neikvæðan orðróm sem hefði verið á kreiki um Landsbankann vorið 2008, sagðist Sigurjón hafa heyrt af honum. Hann sagði að allt hefði verið satt sem var sagt um að verið væri að reyna knésetja Ísland á þessu tímabili.

Alls hafa um 50 manns verið boðaðir til að bera vitni í málinu og munu vitnaleiðslur standa yfir í þessari viku og þeirri næstu.

Skýrslutökunni ekki lokið

Sér­stak­ur sak­sókn­ari ákærði Sig­ur­jón, Ívar Guðjóns­son, fyrr­ver­andi for­stöðumann eig­in fjár­fest­inga sama banka, og tvo starfs­menn eig­in fjár­fest­inga, þá Júlí­us S. Heiðars­son og Sindra Sveins­son.

All­ir eru þeir ákærðir fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Á um­ræddu tíma­bili keyptu eig­in fjár­fest­ing­ar 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlut­um í Lands­bank­an­um sem viðskipti voru með í sjálf­virk­um pör­un­ar­viðskipt­um, eða 48,4% af velt­unni.

Með kaup­un­um hafi þeir komið í veg fyr­ir eða hægt á lækk­un á verði hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og aukið selj­an­leika þeirra á kerf­is­bund­inn hátt.

Málið er flókið, yfirgripsmikið og afar tæknilegt. Farið er út í ákveðin viðskipti og samskipti Sigurjóns við sína samstarfsmenn.

Hádegishlé hófst kl. 12 og mun skýrslutakan yfir Sigurjóni halda áfram kl. 13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert