Innflutningstakmarkanir á fersku kjöti brjóta í bága við EES-samning

AFP

Íslensk löggjöf um innflutning á fersku kjöti er andstæð EES-samningnum samkvæmt rökstuddu áliti sem Eftirlitsstofnun EFTA sendi frá sér í dag. Hægt er að nálgast álitið hér.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alífuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Krafan um að innflytjendur sæki um sérstakt leyfi til innflutnings og leggi fram ýmiskonar vottorð, svo sem til að staðfesta að vörurnar hafi legið frosnar við að lágmarki -18°C í 30 daga og að þær séu ekki smitaðar af salmonellu stangast á við EES-samninginn. Með henni er komið á reglubundnu eftirliti með dýraafurðum frá öðrum EES-ríkjum og telst það viðskiptahindrun í skilningi EES-samningsins. Ferskar kjötvörur innan EES lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í útflutningsríkisinu en eftirlit í viðtökuríki er takmarkað við stikkprufur. Reglurnar byggjast gagnkvæmu trausti milli EES ríkja og eiga að stuðla að óheftum flutningum vöru á innri markaðinum eins og samningurinn gerir ráð fyrir.

ESA telur íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað rennaekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. 

ESA telur umrætt kerfi leyfisveitinga þannig fela í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Rökstutt álit er annað skref í meðferð samningsbrotamáls. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert