Tendrun Friðarsúlunnar í Viðey

Friðarsúlan í Viðey.
Friðarsúlan í Viðey. mbl.is/Golli

Friðarsúlan verður tendruð í Viðey á morgun. Yoko Ono býður öllum sem vilja koma og taka þátt í friðarathöfninni fría siglingu yfir Sundið. Siglingar til Viðeyjar verða frá Skarfabakka frá klukkan 18.00 til 20.00. Fríar strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka og til baka. Fyrsti vagn fer klukkan 17.35 frá Hlemmi og síðan á tuttugu mínútna fresti fram til kl. 19.35. Að athöfn lokinni siglir fyrsta ferja frá Viðey kl. 21.00 og  munu strætisvagnarnir taka á móti fólki og flytja það að Hlemmi.

Dagskráin við Friðarsúluna hefst í Viðeyjarnausti klukkan 19.00 með tónlistarflutningi Snorra Helgasonar.  Naustið verður lýst upp með kertum og þar verður hægt að setjast niður og kaupa sér heitt kakó og dálítið meðlæti. Þar mun Óskatré Yoko Ono standa og geta gestir skrifað á það óskir sínar. Í kringum Friðarsúluna eru grafnar óskir hálfrar miljóna einstaklinga víðsvegar að úr heiminum sem Yoko Ono hefur safnað saman á síðustu áratugum. Við Friðarsúluna mun stúlknakórinn Graduale Nobili syngja nokkur lög en kynnir kvöldsins er Þórunn Lárusdóttir. Veitingasala verður í tjaldi fyrir utan Viðeyjarnaust, þar sem unnt er að kaupa heitt kakó, kaffi og bjór auk léttra veitinga, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni. Tónlist Snorra hefur verið líkt við söngvaskáld eins og Neil Young, Paul Simon og Harry Nilsson. Snorri hefur gefið út 5 plötur sem allar hafa fengið mikið lof gagnrýnenda, þar á meðal eru tvær sólóplötur, I'm Gonna Put My Name On Your Door (2009), Winter Sun (2011) og nú síðast Autumn Skies (2013) sem er fyrsta plata hljómsveitarinnar Snorri Helgason.

Graduale Nobili var stofnaður árið 2000. Kórinn er skipaður 24 ungum stúlkum, völdum úr hópi þeirra sem sungið hafa með Gradualekór Langholtskirkju. Allir kórfélagar hafa stundað eða lokið tónlistarnámi. Kórinn vakti gífurlega athygli strax og voru umsagnir gagnrýnenda eftir fyrstu sjálfstæðu tónleikana svo lofsamlegar að fátítt má telja. Frá september 2010 vann kórinn með Björk Guðmundsdóttur að verki hennar Biophilia sem frumflutt var í Manchester 2011 og ferðaðist síðan um víða veröld á tónleikaferðum hennar. Stjórnandi kórsins hefur frá upphafi verið Jón Stefánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert