Snýst um kjör og samkeppnishæfni

Læknar að stöfum.
Læknar að stöfum. Rax / Ragnar Axelsson

„Þetta kom mér ekki á óvart en ég átti von á mjög góðri samstöðu Þetta eru söguleg niðurstaða en þetta er í fyrsta skipti sem læknar kjósa um verkfallsaðgerðir en við höfum haft verkfallsrétt í tæplega 30 ár,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands sem hefur nú samþykkt verkfallsaðgerðir.

Yfir 80% af at­kvæðis­bær­um lækn­um tók þátt í kosn­ing­unni og yfir 95% þeirra samþykktu fyr­ir­hugaðar verk­fallsaðgerðir sem gert er ráð fyr­ir að hefj­ist þann 27. októ­ber.

Aðspurður um ástæðu þess að læknar vilji nú verkfallsaðgerðir segir Þorbjörn margar ástæður liggja þar að baki. „Það er staðan í kjaramálunum og svo þessi lélega samkeppnishæfni launa sem er búin að skaða heilbrigðiskerfið undanfarin ár. Við sjáum nú fram á að þetta verði miklu verra með árunum því við munum ekki fá lækna til starfa. Þetta snýst um að bæta kjör þeirra sem eru hér staddir og bæta samkeppnishæfnina svo að yngri læknar eru tilbúnir að koma heim og vinna hér.“

Þorbjörn leggur áherslu á mikilvægi þess að spítalinn sé vel mannaður. „Þetta er eins og keðja og við höfum öll okkar hlutverk í keðjunni. Ef það vantar einn eða tvo þá er kerfið verulega illa statt. Eins og staðan er núna mun stöðugt vanta fleiri í keðjuna.“ 

Þorbjörn segist vera bjartsýnn á að úrslit kosninganna hafi áhrif á kjaramál lækna.

„Ég vona að það muni komast einhver kraftur í samningaviðræðurnar og að tíminn verði nýttur vel. Það þarf náttúrlega að vinna hratt ef það á að klára þetta fyrir 27 október.“

Að sögn Þorbjarnar mun næsti fundur samninganefndar Læknafélagsins hjá ríkissáttasemjara fara fram í næstu viku.

Boðaðar verkfallsaðgerðir Læknafélagsins hefjast 27. októ­ber og verða til 11. des­em­ber. Þó verður verkfall aðeins ákveðna daga og aðeins mun hluti lækna fara í verkfall að hverju sinni. 

Fréttir mbl.is:

Læknar samþykktu verkfall

Tryggja ákveðna grunnumönnun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert